Búfjárskaði og eignatjón í Skagafirði

Búfjárskaði og eignatjón af sökum hausthretsins sem skall á þann 10.-11. september sl. var til umræðu á fundi Landbúnaðarnefndar Svf. Skagafjarðar sl. föstudag. Þar kom fram að ekki liggja endanlegar tölur fyrir en allt bendir til að á milli 4000 - 5000 fjár sé saknað eða fundist hefur dautt.

Samkvæmt fundargerð fór formaður yfir stöðuna eins og málið lítur út í dag og gerði grein fyrir fundi sem haldinn var þriðjudaginn 9. október sl. og boðaður var af Almannavarnarnefnd. Á fundinn voru boðaðir fjallskilastjórar auk fulltrúa Almannavarnarnefndar, sveitarfélagsins, Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar og fulltrúa frá ríkislögreglustjóra.

Á fundinum fór Eiríkur Loftsson yfir þær tölur sem nú liggja fyrir varðandi tjón á búpeningi. Ekki liggja fyrir endanlegar tölur, en allt bendir til að á milli 4000 - 5000 fjár sé saknað eða fundist hefur dautt. Þá kom fram að tölur þurfa að liggja fyrir sem fyrst svo hægt sé að gera grein fyrir tjóninu og koma þarf þeim tölum til Bjargráðasjóðs. Þá er umtalsvert tjón á girðingum, sem erfitt er að kanna fyrr en snjóa leysir.

Vernharð fór yfir aðkomu Almannavarnarnefndar að málinu og hvaða lærdóm megi draga af því og hvernig brugðist var við. Gerði hann grein fyrir sameiginlegu leitarátaki bænda og björgunarsveita sem fram fór laugardaginn 29. september sl. Einnig hefur Almannavarnarnefnd skipað vinnuhóp sem vinna á aðgerðaráætlun sem unnið verður eftir ef slíkt ástand kemur upp aftur. Þá á nefndin að skoða hvernig brugðist var við nú og hvað helst þurfi að bæta úr.

Í umræðum nefndarinnar var farið ýtarlega yfir málið, auk umræðna um það tjón sem beint hefur orðið urðu umræður um það hættuástand sem skapast ef að heilu svæðin eru rafmagns-og símasambandslaus jafnvel sólarhringum saman.

Fleiri fréttir