Norðurland vestra fékk 772 milljónir til sóknaráætlana á fimm ára tímabili

Nýverið kom út greinargerð um sóknaráætlanir landshluta fyrir árin 2020 - 2024. Í þessari greinargerð Byggðastofnunar og stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál er gerð grein fyrir ráðstöfun fjárframlaga til sóknaráætlunarsamninga og framkvæmd þeirra á samningstímabilinu 2020-2024.

Innviðaráðuneytið, Byggðastofnun og stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fylgjast vel með framkvæmd sóknaráætlanasamninga og birtir Byggðastofnun árlega greinargerð þar sem gert er grein fyrir framvindu og ráðstöfun fjármuna fyrir liðið ár. Í lok hvers fimm ára samningstímabils er unnin greinargerð þar sem farið er yfir fimm ára tímabil sóknaráætlanasamninga.

Í greinargerðinni kemur m.a. fram að á samningstímanum var 5,96 milljörðum króna varið til sóknaráætlana. Þar af komu um 5 milljarðar frá ríkinu. Fjármunum er fyrst og fremst varið til áhersluverkefna og uppbyggingarsjóða landshlutanna.

Heildarframlög til verkefna á Norðurlandi vestra, bæði í gegnum áhersluverkefni og uppbyggingarsjóð landshlutans, námu samtals 772,6 milljónum króna. Mest af því fjármagni fór til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra, eða 315,7 milljónir króna, og 189,1 milljón runnu til áhersluverkefna, sem voru 28 talsins á tímabilinu. Þá fóru 62,3 milljónir í stofn- og rekstrarstyrki og 130,9 milljónir í svokallaða viðauka.

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga og eru sameiginlegt verkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Í þeim sameinast heimamenn um framtíðarsýn, markmið, forgangsröðun verkefna og leiðir til að áætlunin nái fram að ganga. Markmið sóknaráætlana er að ráðstafa fjármunum sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála, samkvæmt svæðisbundnum áherslum. Markmið með samningum er að stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðaþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni hvers landshluta og þar með landsins alls. Markmiðið er einnig að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu þeirra opinberu fjármuna sem til þeirra er varið. Landshlutasamtök sveitarfélaga vinna sóknaráætlun á sínu starfssvæði og bera ábyrgð á framkvæmd hennar.

Greinargerðina er að finna hér

Heimildir: SSNV.is og Húni.is

Fleiri fréttir