Bútó gefur Bútasaumsteppi

Mánudaginn 15. nóvember s.l. boðuðu bútasaumskonurnar í Bútós Brynjar Bjarkason, forstöðumann Sambýlisins á Blönduósi, á sinn fund. Tilefnið var að afhenda Brynjari fjögur rúmteppi fyrir íbúa Sambýlisins.

Fyrr á árinu hafði Brynjar samband við félaga í Bútós, sem er félagsskapur nokkurra kvenna frá Blönduósi og Skagaströnd, til að athuga möguleikann á að kaupa teppi af hópnum, en konurnar tóku málin í sínar hendur og í sameiningu saumuðu þær teppin fjögur en Brynjar keypti vattfyllinguna í þau. Notuðu konurnar saumaaðferð þar sem þær blönduðu efnum frá öllum í hópnum saman og saumuðu fram- og bakhliðar þannig. Útkoman var vægast sagt litrík og glaðleg.

Stór þáttur í bútasaumnum er vattstunga teppanna og voru Bútóskonur svo lánsamar að þegar leitað var eftir tilboðum í stungu bauð eitt fyrirtæki stunguna ókeypis. Stjörnuspor, fyrirtæki þeirra Halldóru Þormóðsdóttur og Hrafnhildar Svavarsdóttur, hefur haft það fyrir reglu að gefa á hverju ári vattstungu á svokölluð Hetjuteppi og urðu teppin á Sambýlið á Blönduósi fyrir valinu að þessu sinni.

Teppunum fylgdu góðar kveðjur til nýrra eigenda og óska Bútós konur að þeir njóti vel.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bútós konur gefa eitthvað sem þær sauma. Fyrsta gjöfin var veggteppi til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi á fimmtíu ára afmæli hennar, svo fengu börnin á leikskólanum Barnabæ kúruteppi fyrir hvíldarstundir. Heilsugæslan á Skagaströnd fékk veggteppi á síðasta ári, hetjurnar Matthildur og Halldóra í Austurríki fengu rúmteppi í sumar og nú íbúar Sambýlisins rúmteppin fjögur.

Nú er bara að bíða og sjá hvað Bútóskonur gera næst.

Fleiri fréttir