Byggðaráð boðað til fundar um mögulega sameiningu heilbrigðisstofnanna
Byggðaráð Skagafjarðar var í dag klukkan 11:00 boðað til fundar á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins. Fundinn sitja einnig framkvæmdastjórn HS og fulltrúar Akrahrepps. Var efni fundarins möguleg samvinna og eða samþætting heilbrigðisstofnana á Sauðárkróki og Blönduósi.
Á fundi sínum í morgun ítrekaði byggðaráð fyrri mótmæli sín enn og aftur vegna niðurskurðar á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki langt umfram flestar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu á fjárlögum ársins 2010. Í ályktuninni segir; „Ekki síst í því ljósi er lögð áhersla á að stofnunin þoli ekki skerðingu vegna næsta fjárlagaárs. Mikill niðurskurður hefur þegar komið alvarlega niður á þjónustu og starfsemi stofnunarinnar og verður vart unað við að lengra sé gengið í þeim efnum. Byggðarráð samþykkir að óska eftir fundi hið fyrsta með heilbrigðisráðherra um málefni Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki og áréttar mikilvægi þess að milliliðalaust samráð af hálfu ráðherra sé haft viðsveitarstjórnir, eins og lög gera ráð fyrir, áður en teknar eru ákvarðanir sem veruleg áhrif geta haft á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar. Mikilvægt er að allar ákvarðanir sem teknar verða varðandi stofnunina miði að því að standa vörð um þá góðu og mikilvægu þjónustu sem stofnunin hefur veitt.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.