Byggðarráð Blönduósbæjar skorar á Velferðar- og Fjármálaráðuneytið að ljúka við gerð kjarasamnings við sjúkraflutningamenn

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar, sem haldinn var í gær, var samþykkt ályktun vegna þess óvissuástands sem skapast hefur í sjúkraflutningum í Austur-Húnavatnssýslu. Sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi, hafa sagt upp störfum vegna óánægju með kaup og kjör. Segja þeir að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna innan starfssvæðis HSN.

ályktunin er eftirfarandi: Byggðarráð Blönduósbæjar lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í sjúkraflutningsmálum í héraðinu og skorar á Velferðarráðuneytið og Fjármálaráðuneytið að ljúka við gerð kjarasamning við hlutastarfandi sjúkraflutningamenn í samræmi við þá skuldbindingu og ábyrgð sem í starfinu felst.

Jafnframt er skorað á framkvæmdastjórn HSN að samræma launakjör hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna innan starfssvæðis HSN en sjúkraflutningsmenn á Blönduósi telja sig ekki hafa setið við sama borð og aðrir sjúkraflutningsmenn innan HSN. Hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á HSN eru 23 talsins, starfa á Blönduósi, Dalvík, hluti af sjúkraflutningsmönnum á Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn. Þar af starfa 6 á Blönduósi. Hluti af kröfum hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna á Blönduósi er að þeir telji að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna innan starfssvæðis HSN. Byggðarráð Blönduósbæjar telur það óásættanlegt, ef rétt reynist, af hálfu HSN að mismuna starfsmönnum sínum með þessum hætti og skorar á framkvæmdastjórn HSN að leiðrétta þetta misræmi án tafar. Verkefni heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins í Austur Húnavatnssýslu er á ábyrgð HSN og það er framkvæmdastjórnar að tryggja grunnstarfsemi, þar á meðal sjúkraflutninga. Mikilvægi sjúkraflutninga á Blönduósi er öllum ljóst, svæðið er stórt frá Kili í suðri út á Skagatá í norðri og þjóðvegur 1 liggur í gegnum svæðið. Það er afar mikilvægt fyrir íbúa og gesti svæðisins að ljúka þessu máli án tafar til að tryggja öryggi á svæðinu. 

Fleiri fréttir