Hann er kóngurinn!

Reynir Kára og Nökkvi
Reynir Kára og Nökkvi

Hefur þú einhvertíma séð Maine Coon kött? Held að hann hafi þá ekki farið framhjá þér því það sem einkennir þá tegund er einna helst hvað þeir eru stórir, síðhærðir, oft með mikinn makka (kraga), loðið skott og svokallaðar „tufdir” á eyrunum. En þeir eru einstaklega blíðir og góðir og ekki að ástæðulausu að þeir séu oft kallaðir „The Gentle Giants“. Reynir Kárason á Sauðárkróki á einn slíkan sem heitir Nökkvi en Feyki langaði aðeins að forvitnast meira um hann.

 „Nökkvi er inniköttur en fer stundum út á sumrin og þá eingöngu í bandi. Maine Coon getur verið allt frá sex og upp í ellefu kg en Nökkvi er í dag um níu kg,” segir Reynir.

Hvenær eignaðist þú Nökkva? Keypti hann vorið 2007 af ræktendum í Reykjavík.
Hvað er skemmtilegast við Nökkva? Hann er ljúfur sem lamb. Hegðar sér meira sem hundur heldur en köttur. Fagnar manni alltaf þegar maður kemur heim með háværu spjalli og heldur sig oftast nálægt manni. Á fastan stað í hægindastólnum með Helgu, (eiginkona hans Helga Rósa Guðjónsdóttir,) á kvöldin þó varla sé pláss fyrir hann þar.
Hvað er erfiðast? Feldurinn er mikill og þarf talsverða umhirðu.
Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? Litla ljónið, eins og við köllum hann stundum, hefur ákaflega lítið hjarta og t.d. þegar ryksugað er á heimilinu hendist hann alltaf upp í glugga og treður sér bak við gluggatjöld þar til hættan er liðin hjá. Þegar við fáum heimsókn þá hefur hann mikla þörf fyrir að láta ljós sitt skína, situr við hlið okkar og spjallar endalaust og ekki á lágu nótunum til þess að láta bera á sér, enda veit hann að hann er kóngurinn.

 

Feykir þakkar Reyni kærlega fyrir að taka þátt í Gæludýraþættinum

Sigga sigga sigga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir