Helgargóðgætið

Er ekki við hæfi að setja inn uppskrift af gómsætri tertu svona af því að það er Konudagurinn á sunnudaginn.

Maregns(tveir botnar) – gott að gera daginn áður!

4 eggjahvítur

2 dl. sykur

1 dl. púðursykur

2 bollar Rice Krispies

Byrjað er á að stilla ofninn í 110-120 gráður á undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt út í og passið að hræra varðlega saman með sleikju. Til að fá fallegan hring út úr maregnsinum þá er tekinn diskur sem er um 23 cm í þvermál og hann lagður ofaná bökunarpappír, strikaður er hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar og sett á sitthvora bökunarplötuna. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins. Þetta er bakað í rólegheitunum í 2 tíma en gott er að svissa botnunum eftir klukkutíma, setja efri í neðri og neðri í efri. Þegar tveir klukkutímar eru liðnir þá er best að leyfa marengsinum að kólna inní ofninum.

Fylling:

½ lítri rjómi

1 askja(400gr) jarðarber

1 askja (250gr)bláber

Rjóminn er þeyttur og jarðarberin skorin í litla bita, þá er bæði bláberjunum og jarðarberjunum bætt í rjómann en passið samt að geyma smá af berjunum til að nota sem skraut ofaná tertuna. Fyllingin er svo sett á milli maregnsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Súkkulaðikrem:

100 gr. suðursúkkulaði

1 stk Rolo súkkulaði

Dass af rjóma

Suðursúkkulaðið er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði ásamt Roloinu. Ef þér finnst þetta of þykkt bættu þá aðeins meiri rjóma eða mjólk út í og hrærðu saman, leyft að kólna aðeins. Þessu er svo hellt yfir kökuna og berin sem þú geymdir til hliðar til að setja ofaná tertuna dreift yfir. 

 

Njótið helgarinnar 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir