Covid smit í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi

Fyrir helgi greindist Covid smit í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi meðal starfsmanna og nemenda og hefur smitrakningarteymi unnið, í samstarfi við skólann, að rakningu en smitin munu tengjast öllum deildum skólans.

„Niðurstaðan er sú að við komumst ekki hjá því að allir nemendur og starfsmenn í skólanum á Hofsósi verði skráðir í sóttkví næstu viku sem lýkur með sýnatöku næstkomandi föstudag 17. september. Á Hólum eru allir skráðir í svokallaða smitgát og mæta því ekki í skólann fyrr en að hraðprófi loknu,“ skrifar Jóhann Bjarnason, skólastjóri á heimasíðu skólans.

Smitgát er með því sniði að nemendur og starfsmenn þurftu að mæta í morgun á HSN á Sauðárkróki í hraðpróf og að fjórum dögum liðnum þarf að endurtaka leikinn og mæta í hraðpróf á ný en við neikvæða niðurstöðu úr því prófi lýkur smitgát.

„Ég vona sannarlega að ekki reynist fleiri smitaðir og að þessi varúðarráðstöfun verið til þess að við getum örugg haldið kröftugu skólastarfi áfram að þessari viku lokinni,“ skrifar Jóhann í færslu á gav.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir