Dagatal að norðan - Kirkjan kemur til fólksins

Barðskirkja í Fljótum - skjáskot
Barðskirkja í Fljótum - skjáskot

 Jóladagatölin eru af ýmsum toga sem fólk notar til að telja niður dagana fram að jólum. Kirkjan í Skagafirði ákvað að færa kirkjustarfið til fólksins með hjálp tækninnar og hafa útbúið skagfirskt jóladagatal þar sem „einn gluggi birtist á tölvuskjá“ á Facebooksíðu Kirkjunnar í Skagafirði  hverjum degi síðustu vikurnar fyrir jól. Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar kirkjan.is er þessu verkefni gerð góð skil og segir þar að svo heppilega vilji til að í Skagafirði séu kirkjurnar 24 talsins þar sem 24 dagar eru til jóla. Fólki sé boðið inn fyrir dyr til að taka þátt í stuttum bænastundum í skagfirskum kirkjum sem eru fallegar og margar hverjar gamlar.

Að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, sóknarprest á Sauðárkróki opnaðist fyrsti glugginn sl. sunnudag, þann fyrsta í aðventu, með kveðjum úr Flugumýrarkirkju með tónum frá Vorvindum glöðum. Nýr gluggi opnast á hverjum degi úr kirkju í Skagafirði. 

Kirkjan.is spurði prófast Skagfirðinga, sr. Döllu Þórðardóttur á Miklabæ, nánar út í málið.
„Hver og einn prestur sér um upptökur,“ segir sr. Dalla, „minn upptökumaður er gjaldkeri Flugumýrarsóknar, Hannes Bjarnason og dóttir hans Emilia Kvalvik Hannesdóttir, sem fermdist í haust sér um að klippa efnið og ýmislegt annað tæknilegt.“
Prófasturinn er vel í sveit settur hvað tæknimálin snertir með þetta öndvegislið með sér. Og auðvitað bjarga aðrir klerkar sér líka:

„Sr. Halla Rut á Hofsósi hefur beðið vini og vandamenn um að koma með sér á kirkjurnar til að taka upp en sjálf sér hún um að klippa efnið,“ segir sr. Dalla „og sama gerir sr. Sigríður á Sauðárkróki sem klippir með aðstoð unglingsins á heimilinu en meðhjálparinn hefur tekið upp.“ Hún segir að sr. Gísli í Glaumbæ hafi fengið aðstoð frá kollega, sr. Höllu Rut og tekið upp fyrir hana í staðinn og það sé Bryndís Heiða Gunnarsdóttir sem sjái um að klippa efnið.

Gluggadagatal aðventu má sjá hér: Kirkjan í Skagafirði.

„Þetta er enn eitt dæmið um að kirkjan heldur ekki að sér höndum í kófinu. Starf kirkjunnar er sýnilegt og sá öflugi hópur starfsmanna og sjálfboðaliða sem hún hefur á að skipa,“ segir á Kirkjan.is.

 

Aðventustund í Flugumýrarkirkju

Hér opnast fyrsti glugginn í aðventudagatalinu. Aðventukveðjur úr Flugumýrarkirkju með tónum frá Vorvindum glöðum. Nýr gluggi opnast á hverjum degi úr kirkju í Skagafirði.

Posted by Kirkjan í Skagafirði on Sunnudagur, 29. nóvember 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir