Dagskrá Húnavöku í eðlilegri fæðingu

Frá Blönduósi Mynd: Jón Guðmann

Hin árlega Húnavaka fer fram helgina 17. – 19. júlí á Blönduósi. Margt skemmtilegt verður það í boði, m.a. tónleikar með Bróður Svartúlfs og Agent Fresno en þessar hljómsveitir eru sigurvegarar síðustu tveggja Músíktilrauna, fjölskylduball með Svörtu sauðunum, söngvarakeppnin „Míkróhúnninn“, Blönduhlaup U.S.A.H., tónleikar Samkórs Bjarkar í Blönduóskirkju og fjölskylduskemmtun á Bæjartorginu þar sem Skoppa og Skrítla mæta m.a. og leiktæki verða í boði fyrir börnin.

Á laugardagskvöldið verður kvöldvaka í Fagrahvammi með brekkusöng, Gunni og Felix skemmta, afhending umhverfisverðlauna, sigurvegari Míkróhúnsins tekur lagið og margt annað. Dagurinn endar síðan með stórdansleik með hljómsveitinni „Í svörtum fötum“.

Sunnudagurinn verður síðan helgaður söfnunum í bænum en í Hafíssetrinu verður tilkynnt hver á besta nafnið á nýju ísbirnuna í safninu, á bókasafninu verður bókamarkaður alla helgina, Heimilisiðnaðarsafnið verður opið og fleira á eftir að bætast við. Í lokin má benda á það að DC3 Páll Sveinsson verður á svæðinu og vélhjólamenn frá Blönduósi og Sauðárkróki verða á svæðinu.
Heimild; Huni.is

Fleiri fréttir