Dagur leikskólans í dag
Dagur leikskólans er haldinn 6. febrúar ár hvert og vegna þess að hann ber að þessu sinni upp á sunnudag verður hann haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag.
6. febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og var því fagnað í fyrra á 60 ára afmæli félagsins. Dagur leikskólans verður nú haldinn í fjórða sinn, leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla hafa á undanförnum árum, ásamt börnunum, gert daginn eftirminnilegan á margan hátt og verður engin breyting þar á í ár. Starfsmenn leikskóla hafa hver og einn valið sína leið til þess að kynna sinn leikskóla í samstarfi við börnin og er fjölbreytnin mikil að þessu sinni.
Börnin á eldra stiginu í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki ætla að ganga í Skagfirðingabúð og syngja þar nokkur lög kl 10:30 og er fólk hvatt til að mæta og gleðjast með þeim.
Á yngra stiginu er aðlögun nýrra barna í gangi svo þau ætla ekki að taka þátt í þeirri uppákomu en halda þess í stað daginn hátíðlegan og syngja saman og hafa gaman á Ströndinni sem er salurinn þeirra á Víðigrundinni.