Dalbæingar spá áframhaldandi rólegheitaveðri

Frá Stór-Dalvíkursvæðinu. Aðsend mynd.
Frá Stór-Dalvíkursvæðinu. Aðsend mynd.

Þann 6. desember hélt veðurklúbbur Dalbæjar sinn mánaðarlega fund sem að þessu sinni var fámennur þar sem til hans var boðað án fyrirvara af óviðráðanlegum ástæðum, eins og segir í skeyti spámanna til fjölmiðla. Það ber helst til tíðinda að Veðurklúbburinn er kominn á Facebook.

Mikill kynjahalli var á fundinum en þeir sem mættu voru Haukur Haraldsson, Hörður Kristgeirsson, Kristján Loftur Jónsson og Bergur Þór Jónsson, sem skrifaði fundargerð.

„Eins og á öllum fundum okkar hingað til var fyrst og fremst rætt um veður næsta mánuðinn, en í framhaldi af því fréttum við af kveðju frá aðilum tengdum Vegagerðinni sem vildu endilega hvetja klúbbinn til áframhaldandi dáða við notkun á gömlum og gildum leiðum til veðurspár, eins og meðal annars tunglkoma, drauma, lestur í skýjafar og margt fleira.

Einnig höfðu þessir sömu aðilar ásamt fleirum í gegnum tíðina óskað eftir að geta skoðað nýjar og eldri spár klúbbsins á aðgengilegum stað og tókum við því ákvörðun um að búa okkur til Andlitsbókarsíðu/Facebook sem heitir núna Veðurklúbbur Dalbæjar.

Endilega sendið klúbbnum vinabeiðni til að geta fylgst betur með öllu sem þar fer fram ásamt því að geta með tímanum skoðað eldri spár og mögulega fleiri upplýsingar.“

En snúum okkur þá að veðurspá desember mánaðar: Í skeyti klúbbsins segir að eftir skoðun á tunglkomu, draumum og tilfinningu félaga þá líti út fyrir rólegheitaveður á norðurhluta landsins á svipaðan hátt og undanfarna tvo mánuði en þó með meira frosti. Ekki búast spámenn við miklum snjó í desember en þó má gera ráð fyrir hvítum jólum þó ekki með verulega þykku snjólagi. „Við búumst ekki við miklum stormum í desember þar sem eftirminnilegir hestar í draumum voru frekar rólegir að þessu sinni, en auðvitað mun eitthvað aðeins blása stöku sinnum. Sem sagt, fínasti desember hérna á Stór-Dalvíkursvæðinu.

Að venju er kvatt með hinum fínasta kveðskap.

Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðis hetjurnar góðu
austan um hyldýpis haf hingað í sælunnar reit.
/Höf. Jónas Hallgrímsson

----

Með tunglkomu trú þú það
og tem þér gætni slíka:
Veðrabrigða von er að,
víst með fullu líka.
/Höf. Ólafur Guðmundsson í Sauðanesi

----

Það vonandi verður vel metið
og fróðleik þið fundið þar getið.
Með þrýstingi frá
fólki á skjá
er klúbburinn kominn í netið.
/Höf. Bjór

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir