Dansverkið FUBAR í Bifröst á fimmtudag

Úr sýningunni FUBAR. Aðsendar myndir.
Úr sýningunni FUBAR. Aðsendar myndir.

Dansverkið FUBAR verður sýnt í Bifröst á Sauðárkróki nk. fimmtudag, 1. nóvember, klukkan 18:00. Höfundur verksins og aðaldansari er Sigríður Soffía Níelsdóttir, Sigga Soffía, en verkið er unnið í samstarfi við Jónas Sen, tónskáld og gagnrýnanda, sem kemur einnig fram í verkinu sem dansari en hann dansar með Siggu Soffíu  í byrjunarsenu verksins  með tai chi líkum dansi auk þess að semja tónlistina og spila á flygil í verkinu.

Sigríður Soffía og Jónas Sen eru ný komin heim frá Grænlandi þar sem þau sýndu verkið á vegum Outervision danshátíðarinnar í Nuuk. Tveir íslenskir hópar sýndu á festivalinu, FUBAR og CLOAK eftir Sögu Sigurðardóttur. Þetta var 27. sýningin á FUBAR en verkið hefur verið sýnt víða hérlendis á síðustu tveimur árum og fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og hlaut það tvær tilnefningar til Grímuverðlauna árið 2016 þegar verkið var frumsýnt, Jónas Sen fyrir tónlist ársins og Sigga Soffía sem dansari ársins. 

FUBAR er á ferð hér fyrir norðan á vegum verkefnisins List fyrir alla sem ætlað er að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum og stefnt að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Hægt er að kynna sér verkefnið betur á heimasíðunni List fyrir alla.

Sigga Soffía kennir danssmiðjur í grunnskólunum í Skagafirði í vikunni en List fyrir alla býður svo nemendum í 8.-10. bekk grunnskólanna að sjá danssýninguna í lok vikunnar. Tvær sýningar verða því á verkinu, einkasýning fyrir nemendur skólanna og opin sýning fyrir almenning þann 1.nóvember kl. 18:00 í Bifröst á Sauðárkróki.

 Í umsögn um verkið segir Eiríkur Örn Norðdahl á síðu sinni starafugl.is:

"Sigríður er ofsafenginn dansari sem hefur ekki bara impónerandi ægivald yfir líkama sínum heldur ekki síður magnaða tilfinningu fyrir uppbyggingu, skáldskap, ljóðrænu, tónlist og drama. Hún er dágóð leikkona, frábær sagnamaður og með fallega söngrödd, hefur til að bera kynþokka rokkstjörnu og tímasetningar góðs uppistandara. Tónsmíðar Jónasar eru til mikillar fyrirmyndar, þjóna sínu hlutverki vel, þótt þær myndu kannski ekki njóta sín jafn vel án umgjarðarinnar – grunar mig – en umgjörðin ekki heldur án þeirra, þetta eru allt púsl í sömu heildinni og allt passar fallega saman. Þá er fallegt að sjá hann dansa með Sigríði, það undirstrikar þema sýningarinnar, þennan berskjaldaða en tígulega vandræðaleik."
" sýningin virkar á mann sem aristótelísk heild með uppbyggingu, risi og jafnvel einhvers konar uppgjöri – Sigríður Soffía hreinlega lifir af til að dansa annan dag – eða jafnvel enn fremur sem nokkrar samþræddar aristótelískar heildir, sem saman segja sögu af lífsþrá og óttanum við afskræmingu, þjáningu og dauða." 

Nánar má lesa um verkið á Facebook, https://www.facebook.com/events/1767112330083520/, heimasíðu List fyrir alla https://listfyriralla.is/event/fubar-2/ og einnig má finna myndir frá ferðalögum HÉR og undir myllumerkinu #fubarontour á instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir