Dómur fallinn í fjárdráttarmáli
Rúmlega fertug kona var í Héraðsdómi Norðurlands vestra dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir að draga sér rúmar 26 milljónir og nota í eigin þágu. Konan, sem gegndi stöðu aðalbókara og síðar fjármálafulltrúa hjá sveitarfélaginu Skagafirði, játaði sök og kvaðst vera þunglynd og haldin spilafíkn. Tólf mánuðir dómsins eru skilorðsbundnir.
Dómur féll þann 4. desember sl. en var ekki birtur fyrr en nú á vef dómstólsins. Í dómnum kemur fram að konan hafi ekki áður gerst brotleg við lög en að brot hennar hafi verið stórfellt og framið í opinberu starfi.
Konunni var gefið að sök að hafa millifært 24,8 milljónir af reikningum sveitarfélagsins yfir á sína eigin frá tímabilinu 2009 til 2013. Hún millifærði einnig peninga af reikningi Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra og af reikningi Byggðasafns Skagafjarðar. Upp komst um málið þegar verið var að ljúka við gerð ársreikning sveitarfélagsins.
Konan samþykkti bótakröfu í málinu en kvað greiðslugetu sína vera enga. Hún var dæmd til að greiða sveitarfélaginu Skagafirði rúmar 26 milljónir króna með vöxtum. Rúmar þrjár milljónir króna, sem embætti sérstaks saksóknara lagði hald á, voru dæmdar upptækar.