Drama í lokaumferðinni þegar Stólarnir féllu í 4. deild

Frá Hásteinsvelli í dag. MYND AF FB-SÍÐU STUÐNINGSMANNA TINDASTÓLS / MARÍANNA CORNETTE
Frá Hásteinsvelli í dag. MYND AF FB-SÍÐU STUÐNINGSMANNA TINDASTÓLS / MARÍANNA CORNETTE

Það fór eins og margan grunaði að það varð hlutskipti Tindastóls að falla niður í 4. deild eftir frekar afleitt og lukkulaust sumar í boltanum. Enn var þó möguleiki á því að liðið héldi sér uppi þegar flautað var til leiks í Eyjum í dag og nöturleg staðreynd að sigur hefði dugað liðinu til að halda sér uppi þar sem Vopnfirðingar kræktu aðeins í eitt stig á heimavelli gegn Víðismönnum. Lokatölur í leiknum gegn KFS í Eyjum voru hins vegar 4-3 fyrir heimamenn og versta martröð Tindastólsmanna því orðin að veruleika.

Það var boðið upp á sunnlenska klassík í upphafi leiks í Vestmannaeyjum; vind, kulda og bleytu, ef marka má Facebook-færslur stuðningsmanna Tindastóls. Raul virtist láta sér það vel líka því hann kom Stólunum yfir eftir fjögurra mínútna leik og átti eftir að gera öll mörk liðsins í dag. Eyþór Orri jafnaði leikinn á 20. mínútu og síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks reyndust fjörugar. Víðir Þorvarðsson kom KFS yfir á 41. mínútu en Raul jafnaði með glæsimarki á markamínútunni. Víðir bætti hins vegar við marki á fyrstu mínútu uppbótartíma og staðan 3-2 í hálfleik.

Stólarnir lágu á heimamönnum í síðari hálfleik enda dugði liðinu ekkert annað en sigur til að eiga möguleika á að halda sér uppi. Það voru hins vegar heimamenn sem gerðu fjórða mark sitt á 70. mínútu en þá kórónaði Víðir þrennuna. Gestirnir voru afar ósáttir við markið sem þeir töldu augljósa rangstæðu. Tveimur mínútum síðar bætti Raul við þriðja marki sínu og minnkaði muninn í eitt mark. Síðustu mínúturnar gerðu Tindastólsmenn heiðarlega tilraun til að jafna leikinn, áttu fjölda skota að marki en allt kom fyrir ekki.

Nú þarf að vanda til verka í 4. deildinni

Vonbrigðasumri því lokið í fótboltanum á Króknum en báðir meistaraflokkar félagsins máttu bíta í það súra epli að falla niður um deild. Nú þurfa menn að spenna á sig axlaböndin og bretta upp ermar því það þarf gott lið og mikla vinnu til að rífa sig upp úr 4. deildinni að ári – sem hlýtur að verða markmið félagsins.

Önnur úrslit í botnbaráttunni voru á þann veginn að Einherja mistókst að sigra lið Víðis úr Garði en liðin gerðu markalaust jafntefli. Það reyndist Vopnfirðingum dýrkeypt því á sama tíma gerðu Hafnfirðingarnir í ÍH, sem voru í neðsta sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina, sér lítið fyrir og sigruðu lið Elliða í Árbænum 1-2 og komust upp fyrir lið Einherja á markatölu. Þar reyndist 8-0 sigur ÍH á Tindastóli gulls ígildi því aðeins munaði tveimur mörkum á markatölu ÍH og Einherja.

Spenna var einnig á toppi deildarinnar en þó ljóst fyrir lokaumferðina að lið Hattar/Hugins hafði tryggt sér sæti í 2. deild með 42 stig. Ægir Þorlákshöfn fór upp með Austfirðingum en þeir enduðu með 41 stig eftir sigur á toppliðinu í dag fyrir austan. Garðbæingar í KFG sigruðu lið Sindra frá Hornafirði í síðustu umferðinni og enduðu líkt og Ægismenn með 41 stig. Markatala liðanna var jöfn, bæði lið með 13 mörk í plús, en nú verður blaðamaður að viðurkenna að hann hefur ekki hugmynd um hvað réði úrslitum um hvort liðið færi upp. KFG vann báða leikina gegn Ægi en Ægir gerði fleiri mörk en KFG og vann fleiri leiki.

LOKASTAÐAN Í 3. DEILD >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir