Siggi tendraði Tindastólspúðrið

Stólarnir kampakátir. Myndin reyndar tekin fyrir leikinn gegn Valsmönnum í síðustu viku. MYND: HJALTI ÁRNA
Stólarnir kampakátir. Myndin reyndar tekin fyrir leikinn gegn Valsmönnum í síðustu viku. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var boðið upp á allt (nema góða skotnýtingu) þegar gömlu erkifjendurnir, KR og Tindastóll, mættust á Meistaravöllum í Subway-deildinni í gærkvöldi. Stuðningsmenn Tindastóls fjölmenntu að sjálfsögðu og studdu sína menn af fítonskrafti og ekki veitti af því leikurinn var æsispennandi, liðin skiptust þrettán sinnum á um að hafa forystuna og það þurfti að framlengja. Sekúndubroti munaði að Vesturbæingar hefðu náð að sigra leikinn en sigurinn féll Stólamegin eftir magnaðan þrist frá Arnari þegar fimm sekúndur voru eftir. Lokatölur 82-83 fyrir Tindastól.

Leikurinn var fjörugur frá fyrstu mínútu og augljóslega ætlaði hvorugt liðið að gefa þumlung eftir. Það gekk hins vegar hálf brösuglega að koma boltanum í körfuna en það var lið Tindastóls sem leiddi, 13-16, eftir að Axel og Viðar settu niður tvo þrista seint í fyrsta leikhluta. KR-ingar mættu baráttuglaðir til leiks í öðrum leikhluta, náðu að keyra upp hraðann á meðan Stólarnir duttu niður á hælana í varnarleiknum. Þegar annar leikhluti var hálfnaður voru heimamenn komnir ellefu stigum yfir, 34-23, en þá setti Javon Bess fyrir lekann og gerði næstu fjórar körfur Stólanna og sá til þess að Vesturbæingar stingju ekki af. Taiwo Badmus minnkaði muninn í fimm stig, 39-34, þegar innan við mínúta var eftir en KR-ingar áttu ás í erminni; fyrst skoraði Þórir Guðmunds laglega körfu og síðan mætti Brilli með bombu langt utan 3ja stiga línunnar í þann mund sem leiktíminn kláraðist. Staðan 44-34 í hálfleik.

Siggi Þorsteins var ekki í stuði í fyrri hálfleik í liði Stólanna en hann skellti kagganum í gang í síðari hálfleik og reykspólaði um Meistaravellina eins og hann hefði aldrei gert annað. Nú fór kall að koma boltanum í körfu KR, hirti fráköst og varði skot og náði að drífa samherja sína með sér og kveikja sæmilega í Skagfirðingunum í stúkunni. Siggi kom Stólunum yfir, 50-51, eftir tæplega 27 mínútna leik og nú hófu liðin að skiptast á um að hafa forystuna; Siggi og Bess áberandi í liði Tindastóls en Bjössi Kristjáns og Shawn Glover drjúgir fyrir KR.

KR var einu stigi yfir fyrir lokafjórðunginn, 58-57, en það tók Stólana ekki langan tíma að komast sjö stigum yfir, 60-67, eftir þrist frá Bess. Bjössi svaraði með þristi og þá loks féll fyrsti þristur Arnars fyrir Stólana í níundu tilraun. KR-ingar komu til baka og síðustu mínúturnar var spennustigið orðið ansi hátt. Brilli fékk sína aðra tæknivillu á lokamínútunni þegar honum þótti Mussamba ofleika ruðningsbrot Þóris þegar Vesturbæingar virtust ætla að ná þriggja stiga forystu. Bess jafnaði leikinn fyrir lið Tindastóls, 76-76, úr vítinu sem fylgdi og liðunum tókst ekki að næla í sigurkörfu í venjulegum leiktíma.

Arnar með sigurþrist seint í framlengingunni

Rúmlega tvær mínútur voru liðnar af framlengingu áður en Badmus gerði fyrstu körfuna og kom liði Tindastóls yfir og Stólarnir héldu forystunni þar til ein mínúta var eftir. Þá jafnaði Darbo fyrir KR og Shawn Glover kom þeim yfir, 82-80, þegar innan við 20 sekúndur voru til leiksloka. Stólarnir brunuðu þá í sókn og Arnar fékk boltann í bláhorni Meistaravalla og náði skoti sem steinlá í körfunni og kom sínum mönnum yfir og allt ætlaði um koll að keyra. Heimamenn tóku leikhlé og rétt tæpar fimm sekúndur eftir á klukkunni. Þeir komu síðan boltanum á Glover, sem virtist hvorki komast lönd né strönd, en hann náði óvænt að snúa á varnarmenn Tindastóls og komst í færi sem maður hefði ekki veðjað gegn honum að gera sem mest úr. En boltinn skoppaði á hringnum og flautan gall sekúndubroti áður en Vesturbæingar blökuðu boltanum niður. Jí-ha!

Það þarf svo sem ekki að segja neinum að það er alltaf sætt að vinna KR og ekki er það ónotalegra í svona naglbít. Aftur sýndu Tindastólsmenn að þeir geta spilað vörn en þó sóknarleikurinn sé hraðari en í fyrra og boltinn gangi betur milli manna þá mætti skotnýtingin alveg batna. Pétur og Mussamba voru ískaldir í leiknum og Sigtryggur var í basli utan 3ja stiga línunnar en hélt áfram að skjóta og það skipti sköpum að lokum. Javon Bess var stigahæstur með 27 stig og hélt Stólunum inni í leiknum í öðrum leikhluta. Hann setti niður nokkrar risakörfur. Siggi skilaði 15 stigum, tók átta fráköst, stal fjórum boltum og varði þrjú skot og náði að tendra Tindastólspúðrið þegar liðið þurfti á því að halda. Það fór ekki mikið fyrir Taiwo Badmus en hann skilaði 16 stigum og átta fráköstum. Arnar var með 12 stig og Viðar skilaði átta stigum.

Í liði KR var Glover með 23 stig og ellefu fráköst en Koljanin og Darbo skiluðu báðir 17 stigum á meðan Bjössi Kristjáns gerði 14 stig. Tóti túrbó gerði sex stig en tók 13 fráköst. Heimamenn hirtu 54 fráköst á móti 44 fráköstum Tindastóls en á móti töpuðu þeir boltanum 24 sinnum en gestirnir aðeins í tólf skipti. Næsti leikur Stólanna er hér í Síkinu næstkomandi fimmtudag þegar lið Breiðabliks kemur í heimsókn.

Tölfræði á vef KKÍ > 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir