Drangeyjarsveinar sóttu ekki gull í greipar Garðbæinga

Það voru einir 89 áhorfendur sem horfðu á viðureign KFG og Drangeyjar sem fram fór á Stjörnuvellinum í Garðabæ síðastliðið föstudagskvöld. Ekki höfðu leikmenn Drangeyjar erindi sem erfiði og máttu lúta í gras því KFG sigraði 4-2.

Brynjar Sverrisson kom heimamönnum yfir á 14. mínútu og Andri Valur Ívarsson bætti um betur á 22. mínútu. Tveimur mínútum síðar lagaði Guðni Þór Einarsson stöðuna og 2-1 í hálfleik.

Brynjar jók muninn í 3-1 í byrjun síðari hálfleiks en á 61. mínútu minnkaði Óskar Smári Haraldsson muninn. Andri Valur slökkti hins vegar eld Drangeyinga skömmu síðar og lokatölur 4-2.

Þess má geta að í marki Drangeyjar stóð forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar og yfirlögregluþjónn, Stefán Vagn Stefánsson, og stóð fyrir sínu og vel það.

Eftir að leiknar hafa verið átta umferðir í B-riðli 3. deildar er Drangey með 11 stig í sjötta sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn toppliði Magna frá Grenivík og verður leikið á Sauðárkróksvelli næstkomandi fimmtudagskvöld.

Fleiri fréttir