"Draumahljóðfæri kórstjórans"
Karlakórinn Heimir í Skagafirði heldur sína árlegu þrettándatónleika laugardaginn 3. janúar. Það er Sveinn Arnar Sæmundsson frá Syðstu-Grund í Blönduhlíð sem stjórnar kórnum í vetur, en Stefán Gíslason er í ársleyfi.
Sveinn Arnar segir kórinn vel þjálfaðann og skipaðann góðum söngmönnum. Dagskrá tónleikanna er á léttum nótum, en auk tveggja einsöngvara koma fram harmónikkuleikari og konstrabassaleikari á tónleikunum.
Aðspurður um dagskrá þrettándatónleikanna segir Sveinn Arnar hana vera mjög fjölbreytta. "Fyrir hlé verða hefðbundin Karlakórslög, voldug og glæsileg, en eftir hlé taka við svona létt klassísk lög, ef svo má að orði komast. Meðan annars má heyra lög úr smiðju Elvis Presley í flutningi kórs og einsöngvara. Við erum með frábæran harmónikkuleikara með okkur, Jón Þorstein Reynisson, sem mun leika einleik ásamt því að koma fram með kórnum. Einnig mun kontrabassaleikarinn Pétur Ingólfsson spilar með kórnum."
Þá syngja þeir Ari Jóhann Sigurðsson og Þór Breiðfjörð einsöng á tónleikunum. "Ari er félagi í kórnum, með glæsilega og kraftmikla tenórrödd, eins og svo margir þekkja, og söngvari af Guðs náð. Þór Breiðfjörð hefur starfað erlendis um árabil og m.a. sungið við leikhús á Englandi. Hann flutti til Íslands fyrir þremur árum og söng m.a. aðalhlutverkið í Vesalingunum í uppfærslu Þjóðleikhússins og var valinn söngvari ársins á Grímu verðlaunahátíðinni 2012. Þór er alveg frábær söngvari, hefur mikla breidd í rödd sinni og flest öll tónlist liggur vel fyrir hans rödd, sagði Sveinn Arnar í samtali við Feyki rétt fyrir jól.