Dregur úr skjálfta undir Blöndulóni

Undanfarna daga hafa orðið nokkrir jarðskjálftar á Norðvesturlandi, sá stærsti að styrkleika 3,4 á Richter. Skjálftarnir eiga upptök sín undir sunnanverðu Blöndulóni og sunnan við lónið samkvæmt staðsetningu Veðurstofu Íslands. 

Landsvirkjun hefur farið yfir og skoðað öll mannvirki á svæðinu en ekki hafa fundist nein merki um áhrif þessara skjálfta á stíflur við Blöndulón eða önnur mannvirki Landsvirkjunar á svæðinu.  

Það er mat Landsvirkjunar að engin hætta stafi af jarðskjálftunum fyrir stíflur og önnur mannvirki á svæðinu en þau eru hönnuð með tilliti til jarðskjálfta. Áfram er fylgst með jarðhræringum og mannvirkjum á svæðinu í samráði við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra en dregið hefur úr skjálftum á svæðinu.

Fleiri fréttir