Eftirminnilegur dagur. Kalli Matt

Dagurinn 24. nóvember 2008 verður mér mjög minnisstæður. Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar var felld á Alþingi með miklum mun. Umræðan verður líklega til þess að þjappa stjórnarliðinu saman.

Ég er á þeirri skoðun að ríkisstjórnin verði að vinna úr þeim vanda og verkefnum sem við stöndum frammi fyrir og að við verðum að komast á lygnari sæ áður en farið verður út í kosningar. Það verður líka að taka tillit til hugsanlegra nýrra stjórnmálaafla sem hyggja á framboð þau verða að fá sinn tíma til að verða til og móta stefnu sína.

Ég er líka á þeirri skoðun að nefndin sem á að rannsaka kostgæfilega hvað gerðist verði að sjá dagsins ljós sem fyrst.  Ég er búinn að bíða spenntur eftir að hún verði til og hefji störf, því ég fæ spurningar á hverjum degi hvað þessu máli líði eiginlega. Þeir sem eru að vinna að því að koma nefndinni á laggirnar eru Geir, Ingibjörg, Steingrímur, Valgerður og Guðjón Arnar. Hvað dvelur Orminn langa?

Ég var á fundinum í Háskólabíói og mér fannst gott að vera þar og heyra það sem kom þar fram. Ég er á sömu skoðun og Þorvaldur Gylfason um að upphaf vandræðanna megi rekja til þeirra daga þegar við gátum farið út í þann "bissness" að veðsetja lífverur sem ekki voru orðnar til. Orð hans voru mjög í anda þess sem hann sagði á ráðstefnu sem sjávarútvegsnefnd Samfylkingarinnar stóð fyrir á Grand Hóteli í vor og fjallaði um úrskurð mannréttindanefndar SÞ. Þar var fullur salur af fólki og þó fjölmiðlar fengju að vita af því var nánst ekkert um þetta fjallað.

Mín skoðun er sú að auðlindamálin fái á næstu vikum miklu meiri umræðu en verið hefur.  Vonandi verður það til þess að menn fái auðveldari aðgang að þeirri auðlind okkar sem hefur reynst þorra Íslendinga lifibrauð.
Nú læt ég staðar numið vil þó segja ég mæti mörgu reiðu og vonsviknu fólki  og það er erfitt.  Sjálfur sé ég lánin mín hækka og hækka og þá verð ég líka reiður. Reyni samt að láta reiðina ekki stjórna mér út í eitt því ég veit að þá get ég ekkert.  Reiðin lamar mann og þannig vil ég ekki vera. 

Við megum vera reið en hugsum líka um hvaða möguleikar eru fyrir okkur, sem búum hér á "landinu kalda" Við getum unnið okkur út úr þessum erfiðleikum ef við stöndum saman og meinum það virkilega þegar við segjumst vilja endumeta lífsgildin og hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Já stöndum saman.

Kalli Matt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir