„Ég er ekki jafn feimin“
Ungt fólk telur ráðstefnu UMFÍ - Ungt fólk og lýðræði hafa jákvæð áhrif á sig. Það telur að eftir ráðstefnuna sé það reynslunni ríkara í mannlegum samskiptum, það hafi meiri kjark en áður til að viðra skoðanir sínar og að þar öðlist það reynslu sem nýtist í starfi og vinnu. Þetta eru dæmi um svör þátttakenda sem komu fram á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór að Laugarbakka í Miðfirði dagana 5.-7. apríl. Ungmennaráð UMFÍ hafði veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar ásamt starfsfólki UMFÍ.
Ráðstefnuna sóttu tæplega 100 ungmenni alls staðar af landinu og fræddust um aldursbundna mismunun, borgaraleg gildi, stjórnsýsluna sem og tími gafst til að ræða mál líðandi stundar. Yfirskrift ráðstefnunnar var Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans.
Þetta er níunda ráðstefna UMFÍ en sú fyrsta var haldin árið 2009.
Í lok ráðstefnunnar var gerð könnun á upplifun og viðhorfum þátttakenda til ráðstefnunnar. Allir sem þátt tóku í könnuninni sögðust hafa lært eitthvað nýtt og 88% svarenda fannst skemmtilegt á henni.
Í könnuninni voru þátttakendur meðal annars spurðir um það hvaða reynslu þeir fara með heim í veganesti eftir ráðstefnuna.
Dæmi um svör:
„Betri og bættari hugmynd um hvernig megi efla starf ungs fólks í mínum heimabæ.“
„Ég fer héðan fróðari um hvernig ég get haft áhrif í mínu nærumhverfi.“
„Ég er ekki jafn feimin og er reynslunni ríkari hvað varðar mannleg samskipti.“
Ályktun Ungmennaráðs UMFÍ eftir ráðstefnuna.
/UMFÍ