„Ég held að það sé frelsið sem fólkið sækir í.“ Halldór í Brimnesi tekinn tali

Halldór og hesturinn Ylur. Mynd:FE
Halldór og hesturinn Ylur. Mynd:FE

Í tilefni þess að í dag er Laufskálarétt er við hæfi að birta viðtal úr 35. tölublaði Feykis sem kom út nýlega þar sem Halldór Steingrímsson í Brimnesi, hestamaður og rekstrarstjóri í Laufskálarétt, er tekinn tali.

Laufskálarétt er stundum kölluð drottning stóðréttanna og líklega ekki að ástæðulausu þar sem réttin er örugglega orðin meðal stærri einstakra viðburða sem eiga sér stað á landsbyggðinni. Blaðamaður verður reyndar að viðurkenna að þrátt fyrir margra ára búsetu í Skagafirðinum hefur hann ekki komið nema tvisvar eða þrisvar í réttina og skilur afskaplega lítið í hestamennsku yfirleitt. Því lék honum forvitni á að vita hvað það er sem gerir þennan viburð svo merkilegan.

Sé hugsað um Laufskálarétt skýtur mynd Halldórs Steingrímssonar í Brimnesi óneitanlega fljótt upp kollinum en honum bregður ósjaldan fyrir á myndum þaðan þar sem hann gengur vasklega fram í réttarstörfum og nýtur sín þar greinilega til fullnustu. Það lá því beint við að spjalla lítillega við kappann um lífið í kringum Laufskálarétt.

Halldór er fæddur í Brimnesi, á vesturkvistinum í húsinu sem hann býr nú í og sefur þar við suðurgluggann, líklega ein átta skref frá staðnum þar sem hann fæddist, að sögn Halldórs sem reiknar ekki með að margir eigi eins fá skref frá fæðingarstað að rúminu sínu. Foreldrar hans bjuggu á Laufhóli, jörð sem byggð er út úr Brimnesi og standa húsin steinsnar frá hvort öðru, og þar ólst hann upp. Halldór segist vera frekar heimakær og vitnar í viðtal við Helga, nágranna hans í Haga, í síðasta Feyki. „Ætli það sé ekki svipað mikið mál í Helga augum að skutlast milli landa ens og það er fyrir mig að fara á Krókinn,“ segir Halldór. Samt erum við hinir bestu kunningjar og trúlega svipað sælir með tilveruna.“

Ég spyr Halldór út í hestamennskuna, hvort hann hafi átt hross frá unga aldri.

„Nei, í raun og veru ekki, það voru til einhverjir klárar hér á Laufhóli en ekki margir. Þetta er á þeim tíma sem vélvæðingin er að halda innreið sína og hestarnir eru að detta út sem vinnudýr. Það voru fá hross til heima, nokkrar hryssur og folöldunum var lógað en fljótlega fór ég að fá einhverja bölvaða Bóndinn segir frá.ónotatilfinningu fyrir að drepa folöld og fór að sjá eitthvað í þessu þannig að það var svona eitt og eitt folald sem lifði og maður gerði þetta bandvant.  En það var ekki það auðveldasta að fá að taka inn hest að vetrinum, lítil hey og hestar voru hálfgerð óþurftardýr að sumu leyti, að eyða heyi í þá var ekki gott. Svo var það líklega fermingarárið mitt sem ég fékk að taka inn fola, hann var helvíti erfiður en ég hafði sigur. Að ég skyldi hitta á það, það breytti sennilega miklu og hann varð feikigóður og mikill töltari,“ segir Halldór.

Hesturinn, sem hét Nasi, var ekki allra meðfæri en Halldór segist sennilega ekki hafa verið nógu hræddur við hann „...og svo var svo andskoti gott að ríða honum. Maður var enga stund á milli bæja og svo var það sem var ekki síst en það var að sumir nágrannarnir þeir hældu manni og hestinum, og það er mjög mikils virði fyrir uppburðalítinn ungling.“

Um þrjúhundruð manns sem ríða í dalinn

Leiðin lá svo í Bændaskólann á Hólum og Halldór fékk nasasjón af tamningum hjá Magnúsi Jóhannssyni, ráðsmanni á Hólum og tamningamanni búsins, sem sá um kennsluna. „Hann var ekkert spar á að hæla manni ef honum líkaði það sem maður var að gera. Ég efast nú um að hinir sem hann hældi ekki hafi sömu minningu. Ætli ég hafi ekki fengið sæmilegt orð þarna, að minnsta kosti frá Magnúsi, og það varð til þess að ég var fenginn til þess að vera tamningamaður með frægum manni sem kallaður var Jói vakri, Jóhann Þorsteinsson.“  Þá rak hestamannafélagið Léttfeti tamningastöð að vetrinum, hrossin voru tekin í tvo mánuði og tamin. Þetta var upphafið að því að Halldór færi að vinna við tamningar en þær lagði hann stund á næstu árin.

En manstu hvenær þú fórst fyrst í Laufskálarétt?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Sem krakki fór maður alltaf í fjárréttina, ég gæti trúað að ég hafi verið svona 12 ára gamall þegar ég fékk að fara í hrosssaréttina.“

En stóðréttin sem slík, er þetta ekki eldgamalt fyrirbæri?

„Já, ég veit ekki hvað langt aftur. En fé og hross voru aldrei réttuð hérna saman eins og er víða. En ég held að svona hafi þetta verið hér mjög lengi, þau hross sem ekki voru í brúkun voru upprekstrarskyld, hér á þessu svæði og ég held víðar í Skagafirði, til að friða heimahagana fyrir tryppum og stóðmerum. En þetta fór nú fram held ég ósköp hægt og hljótt, ég man að þegar ég er orðinn þetta 14-15 ára þá fer maður nú að blanda sér í leikinn, það er um 1970, en þá eru engin ósköp sem ganga á þarna.“

En veistu hvenær réttin varð að þesu mikla mannamóti?

„Þessi unglingsár mín var þetta ekki, það komu kannski nokkrir menn að sunnan, ég man eftir einum manni, Bergi Haraldssyni sem átti ættingja á Bakka, hann var í hestamennsku. Hann kom og einhverjir menn með honum og svo komu einhverjir frá Króknum eins og Sveinn Guðmunds. og Búbbi, Ína Árna Rögg. og einhverjir fleiri, en ekki þessi mannfjöldi, bara fólk af heimasvæðinu. Ég fór héðan 1976 og þá var ég ekkert svo tengdur svæðinu á meðan, en ég man að við fórum, ég og hann Dúddi minn blessaður á Syðra- Skörðugili, saman í Laufskálarétt á árunum sem ég bjó þar [1976-1982], og þá var mikill gleðskapur og margt fólk, þá var kominn einhver nýr stíll. Það er í kringum 1980 sem þetta er að breytast virkilega,“ segir Halldór.  „Svo flutti ég hingað 1982 og þá er heilmikið að gerast þarna og svo fer að fjölga næstu árin, það bara fyllist allt af fólki og heimamenn vita varla sitt rjúkandi ráð, en fólkið var alltaf velkomið. Svo kom þessi dæmalausa hugsun að það þyrfti að reyna að hafa eitthvað upp úr því og stundum voru sett upp tjöld og einhvern tíma fór það mjög illa því að tjaldið fauk og allt í helvítis veseni og undirballans á öllu saman. En frá því um 1990 þá er þetta orðið feiknalega mikið. Ég hef nú farið í dalinn sem rekstrarstjóri úr Kolbeinsdalnum undanfarin ár og maður er alveg gáttaður. Við erum farin að tala um hundruð manna. Það er ekkert út í bláinn að tala um að það séu 300 manns sem ríða í dalinn til þess að sækja þessi fjögur eða fimmhundruð hross þannig að við megum gá að okkur að halda áfram að reka hross á afrétt því annars verður fólkið fleira en hrossin sem eru á afrétti.“

Hvað veldur þessum ótrúlegu vinsældum?

„Ég held þetta sé svolítið lokahnykkurinn á hestamennsku ársins hjá fólki. En ég hef nú stundum sagt að við megum eiga það að við erum ekki með einhvern söfnunarbauk við hvern hliðstaur sem við stoppum við. Ég veit það ekki,“ segir Halldór og hugsar sig um, það skapast einhver stemning þegar kominn er svona hópur. Hömlurnar fara af fólki og allir fara að tala við alla og enginn að rexast í því hvernig klárinn fer hjá þér, þó hann fari frjálslega. Þú mátt spretta úr spori þarna, taka þátt í rekstrinum og horfa, - horfa á það sem er að gerast, sjá hrossin renna úr Skriðulandshólfinu og yfir Grófina, það er eitthvað af þessu, það er ennþá til fólk sem hefur dálítið gaman af því að fara yfir og reka hross. Það fara samt ekkert allir, þessir 300 manns,  til að reka hrossin, það er bara ekkert hægt, þú kemst ekkert nærri þeim, þannig að margir eru áhorfendur. En það er alltaf einhver reitingur af fólki sem hefur vissa svölun í því að reka hrossin og standa fyrir þeim og mæta þeim ef þau snúast við. Og svo ert þú frjáls, það er þetta frelsi. En ég held að ég hafi ekki síst gaman að því að hitta þessa vini mín sem eru komnir þarna.“

Það er ekki nóg að vera glaður einn

En nú hlýtur þetta að vera þó nokkur vinna svona fyrirfram hjá ykkur sem standið að þessu.

„Undirbúningsvinnan heima fyrir er í raun heilmikil. Við höfum oft um 25 klára sem hægt er að ríða á og þeir þjálfa sig ekkert sjálfir. Og það er heilmikill gestagangur. Ég held í hefðina og reyni að reka sem mest í afrétt og er farinn að segja, gáið að ykkur með að reka í afréttina því að í Laufskálarétt þurfa að vera hross. Og svo þarf að koma þessu heim og sortera þetta. Fólk hefur mjög gaman af að ríða með okkur heim. Ég held að á ekki lengri leið en þetta hafi ég ekki eignast fleiri vini, það verða margir vinir manns þarna. Og ef ég gæti þegið alla þá snafsa sem mér eru boðnir þá væru þeir býsna margir,“ segir Halldór og brosir í kampinn. „ Þetta er hluti af gamninu, maður sér fólk sem maður þekkir ekki neitt sem keyrir kannski langan tíma meðfram hrossunum, það er bara svo gaman að sjá þetta hlaupa heim. Hér koma einhver ósköp af fólki eftir þessum hrossum okkar og þetta er að tínast hérna að, sumir tefjast nú á bæjum hérna á leiðinni og aðrir finna óskaplega notalega laut og setjast þar niður. Svo fer fólk á ball og er að strjálast hingað heim fram eftir allri nóttu. Ég er nú orðinn svo gamall að ég hef varla þrek í þetta, að taka ballið með. Hér er oft mjög gaman um kvöldið, sungið og trallað. Dagurinn eftir er eins og eftir annan gleðskap, það er enginn alvöru gleðskapur nema þú finnir fyrir honum daginn eftir. Þá eru menn að sækja hestana sína, það er eilíf traffík og margar uppáhellingar. Svo er jafnvel eitthvað týnt og þarf að huga að einhverjum. Ég segi að þetta sé að minnsta kosti annar í Laufskálarétt.“

En hvað skyldu það vera margir sem koma í réttina, er einhver tala á því?

„Nei, það hefur verið talað um þúsundir, við ættum kannski að margfalda tölu þeirra sem fara í dalinn með tíu, en þetta er svolítið líkt því að telja hænsni sem eru í breiðri stíu, það er ekki gott. En það er nú kannski ekki minnst virði að það hafa skapast þarna heilmikil tengsl og maður hefur eignast nýja kunningja, og jafnvel viðskiptavini, þetta er orðið svolítið öðruvísi, það voru oft viðskiptavinir hér áður sem keyptu af manni hross og það bjargaði deginum eða jafnvel afborgun af einhverju, en þetta er svona að fjara út.“

Þannig að allur þessi fólksfjöldi, hann er ekki til trafala?

„Ég ætla að vona að við tölum aldrei um að hann sé til trafala, ef við reiknuðum þetta út eftir einhverjum öðrum mælistikum þá væri hægt að fá ýmislegt út, en þetta er okkar gleðidagur og að hafa aðra með sér, það er stundum ekki nóg að vera glaður einn. Það er mjög þekkt að því fleiri sem eru glaðir saman, þá verður líðanin betri,“ segir Brimnesbóndinn að lokum.

 

 

 

 

 

 

Fleiri fréttir