Frumsýning Óvita í kvöld

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir í kvöld leikritið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur. Mikill spenningur er í leikhópnum enda alltaf gaman að frumsýna eftir stífar æfingar undanfarið.

Leikstjórinn Eysteinn Ívar Guðbrandsson sagði í viðtali við Feyki að verkið væri ofboðslega skemmtilegt á margan hátt þar sem börn leika fullorðna og öfugt. Við fáum innsýn í hvernig börn líta á okkur fullorðna fólkið og sjáum hluti sem við kannski gerum okkur ekki alltaf grein fyrir. Við fáum að upplifa fallegan og góðan vinskap sem varð frekar óvænt til vegna mikilla erfiðleika. Þetta er fjörug sýning með djúpa meiningu og er svo sannarlega fyrir alla fjölskylduna.

Þegar blaðamaður Feykis heyrði í Guðbrandi miðasölumanni með meiru, til þess að panta sér miða að sjálfsögðu þá sagðist hann bara ekki muna eftir öðru eins, því uppselt er nú þegar á fyrstu fimm sýningarnar. Svo það er eins gott að sofna ekki á verðinum og panta sér miða og það er hægt að gera í síma 849-9434. 

 

Fleiri fréttir