Ein gömul og góð sönn saga:: Áskorandapenninn Sólrún Fjóla Káradóttir frá Sauðárkróki

Sólrún Fjóla ásamt dóttur sinni.       AÐSEND MYND.
Sólrún Fjóla ásamt dóttur sinni. AÐSEND MYND.

Hver er konan: Sólrún Fjóla Káradóttir. 
Maki: Sigurður Guðmundsson.
Hverra manna: Miðju barn Kára Steindórssonar og Gerðar Geirsdóttur.
Hvar elur þú manninn: Borgarnesi og flutti þangað af því að bæjarstjórinn var Króksari og meira að segja upp alinn á Hólmagrundinni.
Afkomendur: Alma Rut, Kári Jón, Ingunn og tvö barnabörn, Halldór og Sóllilja.
Áhugamál: Útivist, handavinna og matreiðsla. 
Heima er: Fjaran á Króknum. 

Skólaferðalag 9. bekkjar til Vestmannaeyja

Lagt var af stað frá „gagganum“ snemma að morgni með Rúnari Gísla rútubílstjóra og ekið í Þorlákshöfn. Mikill spenningur var í hópnum og þá sérstaklega hjá mér, þar sem tvö eldri systkini mín höfðu dvalið í eyjunni um veturinn á vertíð við ýmis störf, í  frystihúsinu eða á sjó, og grunaði mig ekkert annað en að þarna væru þau örþreytt og upptekin við vinnu og í  mesta lagi myndu hitta mig í stutta stund þessa helgi, því jú þau voru á vertíð og okkur fölskyldunni skildist að það væri unnið allar helgar og ekki litið upp úr slor döllunum og sofið í sjógallanum. En það kom nú annað í ljós. Þegar Herjólfur sigldi inn innsiglinguna fór að heyrast dúndrandi músík, bara eins og væri búið að slá upp bryggjuballi, og þegar dallurinn nálgast bryggjuna sé ég glitta í u.þ.b. tveggja metra hávaxinn rauðhærðan mann og tvo örlítið lægri með honum. Já þarna var mætt þessi líka svakalega móttökunefnd og heldur betur búið að hafa fyrir því að taka á móti litlu systur og bekkjarfélögunum. Þeir voru  með steríó græjur í stórum glerskáp á hjólum og gítar og einnig voru þeir með stóra grind úr bakaríi undir veigarnar. Ég veit ekki hvernig kennurunum okkar leist á þessa móttökunefnd en þeir allavega afþökkuðu að þeir kæmu með okkur í rútunni svo ég og ein vinkona mín fengum leyfi til að labba með þeim upp í bæ (sem væri nú örugglega ekki leyft í dag). 

Við leggjum af stað með steríógræjurnar og bakarísgrindina og ætluðu félagarnir að sýna okkur almennilegt partý í Eyjum og við alveg til í það. En þegar við erum að nálgast húsið sem partýið var í rennir upp að okkur lögreglubíll og vippa sér út tveir lögreglumenn sem heilsa bróður mínum eins og þeir hefðu gert það áður. Einhver urðu orðaskipti á milli þeirra og bróður og hann svo bara sest inn í löggubílinn og þeir bruna í burtu. Ég hafði tekið eftir því þegar við vorum að nálgast bryggjuna að það var búið að hengja upp íslenska fánann af móttökunefndinni og var bróðir með fánann bundinn á bakinu og fór það eitthvað ekki vel í lögreglumennina (skiljanlega). Þarna skildu svo leiðir við restina af móttökunefndinni og við vinkonan fórum að hitta bekkjarfélagana.

Næsti dagur leið og  við brölluðum ýmislegt en þegar leið að kvöldi þennan dag fórum við að spranga og með okkur voru krakkar úr Eyjum að kenna okkur. Allt í einu sjáum við ljósbjarma út í einni eyjunni fyrir utan Heimaey. Við förum að spyrja heimakrakkana um þetta og segja þeir okkur að það hefðu nokkrir gaurar stolið kappróðrarbátum og róið út í Bjarnarey og væru þeir búnir að kveikja þar varðeld. Ekki hvarflaði að mér þarna að þetta tengdist mér eitt eða neitt, bjóst bara við því að þegar laganna verðir hefðu verið búnir að skamma bróður aðeins að hann hefði farið heim að sofa. En satt best að segja vissi ég alveg að þarna væri hann og nokkrir hressir gaurar með honum.               

Sögulok verða ekki sögð því við fórum svo heim daginn eftir og enginn fylgdi okkur í skip af móttökunefndinni, enda ekki viðlátnir þann daginn. 

Í lokin skora ég á Hofsósinginn  og vinkonu mína Guðrúnu Huldu Pálmadóttur að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 26. tbl Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir