Einbeitingarleysi kostaði Hvöt 3 stig í gær
Blíða var á Blönduósi í gær og því tækifæri á því að sýna skemmtilegan fótbolta. Heimamenn sóttu mikið í byrjun og átti Damir Muminovic m.a. skot í þverslá á 3. mínútu en það dró til tíðinda á 12. mínútu er Mirnes Smajlovic skoraði fyrir Hvöt.
Mirnes fylgdi þá eftir færi Bjarna Pálmasonar sem komst einn á móti markmanni en markmaðurinn varði boltann fyrir fætur Mirnes sem gat ekki annað en skorað.
Liðin skiptust á að sækja eftir þetta og sköpuðu sér nokkur fín færi án þess að skora. Það var hins vegar á 31. mínútu leiksins að Hattarmenn náðu að jafna leikinn en þá brást rangstöðugildra heimamanna og Vilmar Freyr Sævarsson stakk sér inn fyrir vörnina og skallaði í markið og staðan því 1-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri en Ellert Eiríksson átti þá fínt skot rétt yfir mark gestanna en fátt markvert gerðist í síðari hálfleik fyrr en á 80. mínútu en þá fengu Hvatarmenn hornspyrnu eftir að skot Damirs hafði lent í afturenda Albins fyrir opnu marki gestanna. Upp úr hornspyrnunni komast Hattarmenn í skyndisókn sem endar með því að Albin Biloglavic brýtur á einum leikmanni Hattar innan teigs, að áliti dómara, og vítaspyrna dæmd. Úr vítaspyrnunni skorar Stefán Þór Eyjólfsson.
Eftir þetta datt botninn úr leik heimamanna og þremur mínútum síðar fær Sigurður Donys knöttinn rétt utan við vítateiginn og lætur vaða á markið og inn fór boltinn, óverjandi fyrir Atla Jónasson í markinu.
Staðreyndin varð 1-3 tap heimamanna og liðin höfðu því sætaskipti á töflunni en nú sitja Hattarmenn í 3ja sætinu en Hvöt í því fjórða.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.