Einn alvarlega slasaður eftir bílveltu í Langadal - Uppfært: Ökumaðurinn lést

Mynd af FB-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Mynd af FB-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Alvarlegt umferðarslys varð á tíunda tímanum í gærkvöldi er bifreið valt út af þjóðveginum í botni Langadals. Einn var fluttur alvarlega slasaður með þyrlu á Landspítalann. Veginum var lokað um tíma meðan björgunaraðgerðir fóru fram.

Mikil umferð var um löggæslusvæði lögreglunnar á Norðurlandi vestra um liðna páska og skiptu bifreiðarnar þúsundum suma dagana, eftir því sem kemur fram á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. „Heilt yfir gekk umferðin vel og nánast óhappalaus. Tvö minniháttar umferðaróhöpp urðu en meiðslalaus. Hins vegar verður ekki hið sama sagt um umferðarhraðann en hann var allt of hár, Hátt á fjórða hundrað ökumenn voru kærðir vegna umferðarlagabrota og aðallega vegna hraðaksturs. Er þetta mikil aukning milli ára þegar að 250 ökumenn voru kærðir 2018,“ segir á síðunni en þessi málaflokkur er ofarlega í huga embættis lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Áfram verður unnið ötullega í því að ná umferðarhraða niður og með því fækka umferðarslysum sem að leiða má líkum að tengist honum.

Uppfært klukkan 10:10

Á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra kemur fram að ökumaðurinn hafi látist í slysinu.

"Rétt um kl.22.00 í gærkvöldi barst lögreglunni á Norðurlandi vestra tilkynning þess efnis að umferðarslys hefði orðið á þjóðvegi 1 um Langadal. Björgunarlið fór þegar á vettvang. Þarna hafði bifreið á suðurleið lent utan vegar og oltið margar veltur. Einn maður var í bílnum. Reyndist hann alvarlega slasaður og báru lífgunartilraunir ekki árángur. Var ökumaður úrskurðaður látinn á vettvangi. Ökumaðurinn er með erlent rikisfang. Ekki er unnt að greina frá nafni hans að svo stöddu. Vegna vettvangsrannsókna verður þjóðvegur 1 lokaður í nokkurn tíma upp úr kl.10.00. Vegfarendum er bent á hjáleiðir um Svínvetningabraut og Skagastrandarveg og Þverárfjallsveg til Sauðárkróks."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir