Einn ríkasti maður heims rennir fyrir laxi í Blöndu

Húnahornið segir frá því að fjölmargir forvitnir íbúar Blönduóss lögðu leið sína niður á höfn þegar fréttist af komu skútu einnar. Þegar hún nálgaðist land sást að þarna var á ferð glæsilegt fley. Skútan heitir Hetairos og er skráð i George Town á Cayman eyjum. Skútan kom siglandi frá Akureyri en þar hefur hún verið síðastliðna viku.

 Skútan mun liggja við landfestar á Blönduósi næstu daga en fréttir segja að eigandi hennar sé væntanlegur í laxveiði í Blöndu og mun ætla að gista í henni milli þess að hann reynir fyrir sér í veiðinni.

Fréttaritari heyrði einn heimamann spyrja hvaðan skútan væri og þegar svarið var Cayman Island spurði sá sami um hæl: „Do you know Jón Ásgeir?“ Ekki hafði hann heyrt minnst á þann kauða en aðrir héldu að um borð væru peningar okkar Íslendinga sem geymdir voru á Cayman eyjum en ekki fékkst það uppgefið.

Eigandi skútunnar, sem er 141 fet eða um 43 metra að lengd og 8 metra að breidd og ku vera 18 ára gömul, er Otto Happel 59 ára gamall Þjóðverji sem er númer 287 á lista Forbes yfir ríkustu menn heimsins. Ríkidæmi hans er metið á 3 billjarða bandaríkjadala en hann er giftur og á 6 börn. Til marks um efnahag Otto þá er ríkidæmi Roman Abramovich eiganda Chelsea talið vera 18,7 billjónir dollara.

Skútan mun eftir veiðiferð í Blöndu og vonandi góða veiði, halda til Grænlands og Jan Mayen áður en haldið er til heitu landanna aftur. Hægt er að forvitnast meira um skútuna á þessari síðu http://www.rodiek.biz/engl/gallerie/hetarios/index.html en það er óhætt að segja að hún sé geggjuð að innan sem utan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir