Einn slasaðist illa í útafkeyrslu
Rétt um kl. 23:00 sl. miðvikudagskvöld fengu Brunavarnir Skagafjarðar útkall vegna bifreiðar sem ekið hafði verið útaf Sauðárkróksbraut á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar. Eftir því sem fram kemur á Facebooksíðu Brunavarna voru þrír einstaklingar í bifreiðinni og þurfti að beita björgunarklippum til þess að ná einum þeirra út.
Samkvæmt heimildum Feykis voru hér um ungmenni að ræða úr héraðinu. Þau voru flutt á sjúkrahús til skoðunar og meðferðar en eitt þeirra slasaðist illa og hlaut alvarlega áverka á baki.