Ekkert bensín hjá Bjarna Har lengur

Það verður sjónarsviptir af bensíndælunni við Verslun Haraldar Júlíussonar, eða bara Bjarna Har, en hún mun brátt hverfa af stalli sínum. Mynd: PF
Það verður sjónarsviptir af bensíndælunni við Verslun Haraldar Júlíussonar, eða bara Bjarna Har, en hún mun brátt hverfa af stalli sínum. Mynd: PF

Eftir hartnær 87 ár hefur bensínsölu verið hætt hjá Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki og verið að fjarlægja tanka úr jörðu og dælu af stalli sínum framan við búðina. Kaupmaðurinn síungi, Bjarni Har, segir tilfinninguna dálítið óþægilega en hann býst við að hann muni jafna sig. „Þetta er langur tími: Ég hef verið þriggja ára þegar bensíndælan kom fyrst. Þetta hefur gengið vel en nú vill heilbrigðisfulltrúinn losa okkur við dæluna,“ segir Bjarni, ekki alveg sáttur.

Verslun Haraldar Júlíussonar var stofnuð árið 1919 í timburhúsi sem stóð á sama stað og núverandi verslunarhús, sem var byggt 1929-1930. Byggðasafn Skagfirðinga var í samstarfi við Verslun H. Júlíussonar á árunum 2003 til 2009 á meðan tæpt stóð að versluninni yrði lokað en á heimasíðu safnsins kemur m.a. fram að það hafi endurnýjað skiltið sem sett var upp um 1940 og sömuleiðis hillur og búðarborð, árið 2003.

Fyrir ekki svo löngu hóf nýr starfskraftur að vinna í búðinni með Bjarna, Kirsten Kröner – Dreiner, sem vill láta kalla sig Kiki. „Hún er mjög góð, áhugasöm og dugleg,“ segir Bjarni.

Fyrir ekki svo löngu hóf nýr starfskraftur að vinna í búðinni með Bjarna, Kirsten Kröner – Dreiner, sem vill láta kalla sig Kiki. „Hún er mjög góð, áhugasöm og dugleg,“ segir Bjarni.

Bjarni fagnaði 90 ára afmæli sínu í skugga Covid þann 19.  mars sl. en stefndi á að slá upp veislu og var hún áætluð í ágúst en út af ástandinu þurfti að slá henni á frest. Bjarni er samt ekki alveg vondaufur um að hún fari fram þótt síðar verði.

„Ég ætla að reyna að þrauka og halda veisluna, vonandi næsta sumar. Ég vil ekki hafa hana um hávetur. Það þarf að vera almennilegt veður, fólk má ekki vera veðurteppt eða verða fyrir öðrum óþægindum. Ég stefni á næsta sumar og vonandi að veiran verði farin þá,“ segir Bjarni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir