„Ekkert mál að redda þessu - allt sem þarf er bara vilji“
Sigrún Aadnegard færði nýrri sveitarstjórn svf. Skagafjarðar, á fyrsta fundi sínum sem fór fram í Safnahúsinu á Sauðárkróki í gær, undirskriftarlista um 200 íbúa Skagafjarðar um aðgengis- og aðstöðumál fatlaðra. Óskað er eftir því að sett verði „tafarlaust fjármagn í málefnum fatlaðra í sveitarfélaginu, í búsetumál, í endurhæfingu, flutning á Iðjunni og bæta aðgengi stofnana sveitarfélagsins,“ sagði Sigrún við afhendingu undirskriftarlistans.
Sigrún sagði einnig að það eigi að vera metnaður sveitarfélagsins að standa vel að málefnum fatlaðra. „Sú var tíðin að litið var til Skagafjarðar sem fyrirmyndar sveitarfélag í þeim málum. Fatlaðir eru líka fólk,“ bætti hún við.
„Að fatlaðir einstaklingar skuli ekki geta notið þess að fara í sund upp í sundlaug hjá endurhæfingu vegna þess að það vantar að greiða laun fyrir starfsmann. Að fullorðir einstaklingar skuli þurfa að búa heima hjá foreldrum sínum á meðan það stendur autt húsnæði í eigu sveitarfélagsins,“ tók Sigrún sem dæmi um bága stöðu fatlaðra einstaklinga í sveitarfélaginu í samtali við Feyki eftir afhendinguna.
„Það átti að flytja Iðjuna úr þessu hriplega húsnæði útfrá sem hvorki heldur vatni né vindum. Það átti að flytja það upp í Furukot sl. haust en það var hætt við það, það var ekki til peningur í það en á sama tíma er hægt að borga 350 þúsund kr. í leigu fyrir þetta húsnæði þarna útfrá á mánuði að manni skilst.“
Frábær þjónusta fyrir 25-30 árum síðan
Undirskriftarsöfnunin var gerð að frumkvæði Sigrúnar. Aðspurð um hvers vegna hún ákvað að fara af stað hana svaraði hún að henni þætti málefni fatlaðra hafa verið í ólestri á síðasta kjörtímabili.
„Það er margt sem mér finnst að megi betur fara. Ég hélt að ég væri búin með þennan pakka, að þurfa að standa í baráttu í málefnum fatlaðra en það er endalaust, það er bara þannig – því miður.
Fyrir um 25-30 árum síðan, þegar ég var að byrja með son minn í endurhæfingu fyrir sunnan, þá gat ég hælt sveitarfélaginu hérna fyrir frábæra þjónustu við fatlaða. Og alveg framundir þessi síðustu ár þá var það hægt, fólk hreinlega flutti hingað vegna þess hvað það var góð þjónusta.
Ef sveitarfélagið er rekið eins vel og þeir segja, þá eru til peningar sem hægt að færa á milli málaflokka og ekkert mál að redda þessu - allt sem þarf er bara vilji,“ sagði Sigrún í lokin.