Eldri borgarar frá vinabænum Nokia í Finnlandi heimsækja Blönduós

Þann 10. október síðastliðinn komu 28 félagar eldri borgara í vinabænum Nokia í heimsókn til Blönduóss. Formaður félagsins Eeva Enwald var fararstjóri. Þetta er þriðja heimsókn Eevu til vinabæjarins Blönduóss og Kai maður hennar var að koma í annað sinn.

Hópurinn kom með rútu frá Akureyri með viðkomu í Glaumbæ þar sem safnið var skoðað. Hófst móttaka þeirra á Blönduósi við Pottinn og pönnuna. Kári Kárason tók á móti gestunum fyrir hönd Blönduóssbæjar og bauð upp á léttan málsverð. Eftir mat var kirkjan skoðuð með leiðsögn Aase Dunn. Heimilisiðnaðarsafn og Halldórustofa var skoðað með leiðsögn Elínar, Kristín opnaði handverkshús Textílseturs, Búsílag fyrir gesti og gengið var um Kvennaskólann og húsakynnin skoðuð m.a. baðstofa og Elínarstofa. Félag eldri borgara greiddi aðgangseyri að Heimilisiðnaðarsafni.

Þá var haldið í Hnitbjörg, þar tók Sigríður Bjarkadóttir forstöðukona félagsstarfs aldraðra á móti gestunum ásamt öðrum starfskonum og eldri borgurum sem sátu þar við sín tómstundastörf og sýndu gestum hvað þeir voru að fást við og buðu síðan upp á kaffiveitingar.

Heimsókninni lauk svo með útsýnisferð um bæinn en þokunni sem grúft hafði yfir allan daginn var þá farið að létta. Gengið var fram á sjávarbakkann á brekkunni og farið niður í gamla bæinn og elsta byggðin skoðuð. Þeir sem beittu athyglinni gátu séð seli á klöppunum neðan við brúna og einnig brugðu laxarnir á leik og stukku  til að gleðja gestina.

Skipulag dagskrár önnuðust gamlir félagsmenn úr Norrænafélaginu sáluga, þau Aðalbjörg, Vignir, Kolbrún og Guðjón. Bílstjóri hópsins var Blönduósingurinn Sigurður Baldursson.

Gestirnir  kvöddu glaðir og ánægðir með móttökurnar hvarvetna og báru fram þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg til að gera heimsóknina ánægjulega.

Það er gott að vita til þess að fólk vill rækta vinskap á milli vinabæjanna á Norðurlöndum og það hafa þau hjónin Eeva og Kai sannarlega gert og hvatt aðra.

/Húni.is
Texti: Aðalbjörg Ingvarsdóttir
Myndir: Guðjón Ragnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir