Elín gerð að heiðursfélaga FÍSOS
Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, hefur verið gerð að heiðursfélaga Félags íslenskra safna og safnamanna. Hún hlaut nafnbótina nýverið ásamt þremur öðrum en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa sinnt safnamálum af miklum metnaði í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í samfélagi safnafólks. Þetta kemur fram á vef Húna.
Elín hefur frá árinu 1992 séð um rekstur Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi en safnið var fyrst opnað á 100 ára afmæli Blönduósbæjar árið 1976. Hún er forstöðumaður og jafnframt formaður stjórnar safnsins.
Í rökstuðningi með tilnefningu Elínar segir: „Elín hefur haldið uppi faglegu og öflugu starfi á Heimilisiðnaðarsafninu í áratugi. Hún hefur staðið á bak við uppbyggingu þess, fyrir mörgum áhugaverðum sýningum, verkefnum sem tengjast rannsóknum á handverki og viðburðum í héraði. Elín hefur verið sérstaklega lunkin við að fá lista- og fræðafólk til samstarfs við safnið og stýrt þessari sjálfseignarstofnun af stakri prýði.
Félag íslenskra safna- og safnafólks þakkar Elínu fyrir ómetanlegt framlag hennar til varðveislu og miðlunar á íslenskum heimilisiðnaði í áratugi.“
Kristín Halla Baldvinsdóttir, formaður FÍSOS, afhenti Elínu viðurkenninguna þann 3. október síðastliðinn.