„Ella Fitzgerald hefur haft mikil áhrif á mig“ / HRAFNHILDUR VÍGLUNDS

Það er söngkonan Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni – og í raun öðru sinni því umsjónarmanni Tón-lystar urðu á smá mistök. Hrafnhildur, sem við sáum fara á kostum í The Voice Ísland fyrir jól, ólst upp í Dæli í Víðidal (Sólardalnum) og segist alltaf titla sig sem Húnvetning. Auk þess að syngja glamrar hún aðeins á píanó. „Ég lærði á klarinett sem krakki en held ég gæti ekki náð hljóði úr slíku apparti núna til að bjarga lífi mínu,“ segir Hrafnhildur.

Helstu tónlistarafrek: Mér finnst erfitt að tala um afrek í tónlist. Hver er mælikvarðinn fyrir slík afrek? Er það hversu margir sáu mann á sviði? Eða hveru mörg hjörtu maður snerti? Ég hef verið í bransanum í rúm 20 ár og gert afskaplega margt. Þegar ég bjó út á landi var ég aðallega í svona “innansveitarviðburðum”. Eftir að ég flutti á mölina hef ég svo aðallega verið að koma fram á einkaviðburðum eins og brúðkaupum og afmælum. Ég söng með tríóinu Kókos í næstum 3 ár, það var mjög gaman. Hápunkturinn á því samstarfi voru tónleikar í Borgarvirki á héraðshátíðinni Eldur í Húnþaingi. Að taka þátt í The Voice var mjög skemmtileg reynsla, það er alltaf gaman að sjá hvernig hlutirnir fara fram á bak við tjöldin. Mesta afrekið þessar vikurnar var að klára fyrsta stúdíólagið mitt “Believe” sem kemur vonandi í spilun á útvarpsstöðvar á næstu vikum!

Uppáhalds tónlistartímabil? Úff! Hippatímabilið held ég. Annars hlusta ég á nánast allt.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Flottar raddir fá mig alltaf til að sperra eyrun. Það er nokkuð sama hvers konar tónlist er um að ræða.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mamma hlustaði mikið á íslenska tónlist eins og Brunaliðið og Magga Eiríks. Hún átti líka Queen kasettu sem var í miklu uppáhaldi hjá mér. Í bílnum hjá af og ömmu var Kenny Rogers kasetta sem ég var ferlega hrifin af. Svo var ég algjör Eurovision aðdáandi. Amma og afi tóku alltaf upp keppnirnar og svo horfði ég á þær endalaust, dansaði og söng með.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta kasettan mín var Bad með Michael Jacksson.

Hvaða græjur varstu þá með? Þá átti ég bleikt kasettutæki sem ég hafði fengið í afmælisgjöf þegar að ég var 11 eða 12 ára. Þvílíkur fjársjóður! J

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf (eða fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn)? Fyrsta platan sem ég óskaði mér var eiginlega ekki plata, heldur mixteip af Led Zeppelin plötum sem bróðir minn gerði fyrir mig. Ég hef verið einlægur Led Zeppelin aðdáandi frá því ég var 12 ára. Fyrsta lagið hinsvegar sem ég fílaði í botn var Another one bites the dust með Queen. Ég sat víst fyrir framan kasettutækið þegar ég var 3 ára og bað um það aftur og aftur.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég er alveg ferleg með að fá lög á heilann og skemmtilegustu lög geta orðið alveg óþolandi þegar þau hafa ómað í höfðinu á manni í sólarhring eða meira J. Latabæjarlagið er alveg ferlegt!

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Af erlendu lögunum verð ég að segja bæði Fanget av en stormvind með Carola og Hold me now með Johnny Logan. Uppáhalds íslenska lagið mitt heitir Aldrei ég gleymi og var í undankeppninni á níunda áratugnum held ég.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Góður ´80s playlisti klikkar aldrei eða ‘90s rokk.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Fallegar hugleiðslumöntrur slá flest annað út.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ef Led Zeppelin kæmi saman færi ég á þá tónleika, helst í London og tæki stóra bróður með. Annars væri það Adele í borg í þægilegri flugfjarlægð með kærastann með mér.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Sálin hans Jóns míns og Guns N’ Roses ómuðu í Zophaníasi Geir (hvítu Corollunni minni). Hann var alveg sáttur við það fannst mér.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ella Fitzgerald hefur haft mikil áhrif á mig, hún er algjörlega stórkostleg.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Led Zeppelin IV – platan sem Stairway to Heaven kom út á, en það lag er að mínu mati eitt mesta snilldarverk allra tíma

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Stairway to Heaven / Led Zeppelin
Nathan Sykes / Over and over again
When we were young / Adele
Ölduslóð / Svavar Knútur
Háa C / Moses Hightower
Patience / Guns N’ Roses 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir