Endurhæfingarsundlaug HS lokað vegna niðurskurðar að sögn starfsfólks
Starfsfólk endurhæfingar Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna fréttar um lokun sundlaugar Heilbrigðisstofnunarinnar, sem birt var á vefsíðu Feykis í gær. Í henni segir að Endurhæfingarsundlaug HS verði lokuð í sumar, frá 2. júní til 18. ágúst, vegna niðurskurðar á fjármagni til stofnunarinnar en ekki vegna viðgerða.
„Niðurskurður undanfarinna ára hefur haft í för með sér skerðingu um 2,5 stöðugildi starfsmanna endurhæfingardeildar HS sem hefur þýtt skemmri opnunartíma sundlaugar, æfingasalar og þar af leiðandi þjónustu við skjólstæðinga okkar.
Endurhæfingarsundlaug HS er eina innisundlaugin í Skagafirði og endurhæfingarsalurinn eini æfingasalurinn hér um slóðir sem er með aðgengi fyrir alla, jafnt hreyfihamlaða sem aðra. Skerðing á starfsemi deildarinnar kemur því verst niður á þeim sem ekki geta leitað annað.
Komur í endurhæfingarhús HS hafa verið 25-30 þúsund á ári undanfarin ár svo á því má glöggt sjá hve mikilvæg þessi starfsemi er íbúum Skagafjarðar. Stöndum vörð um stofnunina okkar,“ segir í tilkynningunni.
Bréfið undirrita: Auður Aðalsteinsdóttir sjúkraþjálfari, Árný Lilja Árnadóttir sjúkraþjálfari, Fanney Ísfold Karlsdóttir sjúkraþjálfari, Helena Magnúsdóttir sjúkraþjálfari, Sveinn Sverrisson sjúkraþjálfari, Sigríður Guðmundsdóttir umsjónarmaður sundlaugar og María Ásgrímsdóttir umsjónarmaður tómstundastarfs.