Endurhæfingu HS færð æfingatæki á aðventukvöldi Sjálfsbjargar – FeykirTV
Endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki var færð rausnarleg gjöf á aðventukvöldi Sjálfsbjargar sem fór fram í Húsi frítímans sl. mánudagskvöld. Um er að ræða tvö æfingatæki að andvirði tveggja milljóna króna.
„Það er mér sönn ánægja að koma og taka á móti þessari höfðinglegu gjöf frá Sjálfsbjörgu. Þessi gjöf er okkur mjög mikilvæg en tækin sem við eigum í dag eru orðin býsna öldruð, yfir 30 ára gömul, hafa að vísu enst okkur mjög vel. En þetta er kærkomin gjöf og vonandi byrjun á því að við getum endurnýjað tækjakostinn okkar,“ sagði Fanney Ísfold Karlsdóttir sjúkraþjálfari í samtali við Feyki eftir afhendinguna.
Það var Fanney sem veitti gjöfinni viðtöku, ásamt Herdísi Klausen hjúkrunarforstjóra heilbrigðisstofnunarinnar, frá Stefaníu Fjólu Finnbogadóttur gjaldkera Sjálfsbjargar í Skagafirði og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formanni.
Sjálfsbjörg hefur þegar fest kaup á æfingartækjunum tveimur en þau munu nýtast annars vegar til æfinga fyrir hendur og efri hluta líkamans og hins vegar er hitt tækið til þess að styrkja fætur. Þar að auki var gefin loftpressa sem knýr tækin áfram og verður hægt að nýta loftpressuna fyrir tvö tæki til viðbótar.
FeykirTV var á staðnum og myndaði þá notalegu stemningu sem ríkti á staðnum en þar tók Barnakór Varmahlíðarskóla nokkur íslensk jólalög, Sr. Sigríður Gunnarsdóttir flutti aðventuþanka, Bergrún Sóla og Malen Áskelsdætur tóku nokkur frumsamin lög í bland við jólalögin og Sylvía Sif Halldórsdóttir og Jónas Aron Ólafsson sungu og komu öllum í jólaskapið.
http://youtu.be/Ak_kKwNXPTM