Endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði

Vaskur hópur ungmenna frá Blöndustöð Landsvirkjunar gróðursetti nýlega á tólfta hundrað birkiplöntur við endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði. Aðsendar myndir.
Vaskur hópur ungmenna frá Blöndustöð Landsvirkjunar gróðursetti nýlega á tólfta hundrað birkiplöntur við endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði. Aðsendar myndir.

Ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunar gróðursettu nýlega á tólfta hundrað birkiplöntur til endurheimtar Brimnesskóga vestan við ána Kolku Skagafirði. Þar af voru 380 plöntur í tveggja lítra pottum og um 800 í fimmtán gata bökkum. Landsvirkjun hefur lagt verkefninu lið um árabil undir yfirskriftinni “Margar hendur vinna létt verk“.

Skagfirskar birkiplöntur gróðursettar í Brimnesskóga með bros á vör.

Fjórtán ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunar unnu ásamt framkvæmdastjóra Brimnesskóga að gróðursetningunni dagana 7. og 8. ágúst sl. Ýmist voru plönturnar gróðursettar með skít og skóflu sem kallað er eða með geispum. Að þessu sinni var gróðursett birki sem á rætur að rekja í Gljúfurárgil í Blönduhlíð. Fyrr í sumar báru sjálfboðaliðar áburð á þær plöntur sem þegar höfðu verið gróðursettar. Einnig hefur í sumar verið unnið að lagfæringu á girðingu sem látið hafa á sjá vegna snjóþyngsla. Garðyrkjustjóri Skagafjarðar hefur verið bakhjarl verkefnisins frá upphafi.

Landið sem gróðursett er í er ríflega tuttugu og þrír hektarar og er í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, en það er Brimnesskógar, félag sem stendur fyrir framkvæmdunum samkvæmt samningi við sveitarfélagið. Við endurheimt Brimnesskóga er einungis gróðursett birki og vefjaræktaður reyniviður sem vaxið hefur í Skagafirði frá öndverðu.

Frá 2004 hefur árlega verið unnið að gróðursetningu í sjálfboðavinnu. Mörg ár þar á undan fóru fram kynbætur með ágræðslu og frærækt á birki úr Geirmundarhólaskógi í Hrolleifsdal.

Áður hefur á ræktunarsvæðinu verið gróðursett birki úr Fögruhlíð í Austurdal og Geirmundarhólaskógi. Birkið sem notað er í verkefninu hefur verið rannsakað af sérfræðingum við Háskóla Íslands og er það sagt vera „mjög sérstakt“. Vonir standa til að kynbætta birkið verði fljótvaxið, beinstofna og ljósara á börk en birki sem ekki er kynbætt. Lengstu trén í náttúrulegum skagfirskum birkiskógum eru nú um tólf og hálfur metri á lengd en hæstu trén eru um átta metra há. Kynbætur fóru fram í Gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík en ræktunin hefur að mestu farið fram í gróðrarstöðinni Barra á Valgerðarstöðum.

Stund milli stríða. Matarhlé úti í guðs grænni náttúrunni.

Áfram verður unnið að verkefninu um endurheimt Brimnesskóga og þess vænst að þar verði er fram líða stundir yndisreitur Skagfirðinga og allra náttúruunnenda.

Fjölmargir hafa orðið til að leggja verkefninu lið í gegn um árin, nú síðast Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Stjórn félagsins skipa Steinn Kárason framkvæmdastjóri, Stefán S. Guðjónsson stjórnarformaður, Vilhjálmur Egilsson, Jón Ásbergsson og Sölvi Sveinsson.

Brimnesskógar félag, vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa endurheimt Brimnesskóga lið á einn eða annan hátt.

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir