Engin kæra barst vegna kjafthöggs Brynjars Þórs

Brynjar Þór og Björgvin Hafþór. Skjámynd af myndbandi Körfuboltakvölds Stöðvar 2.
Brynjar Þór og Björgvin Hafþór. Skjámynd af myndbandi Körfuboltakvölds Stöðvar 2.

Mikið hefur verið rætt um atvik sem varð í leik Tindastóls og KR í Dominosdeild karla frá 6. janúar sl. þegar Tindastólsmaðurinn Björgvin Hafþór Ríkarðsson féll í gólfið eftir samstuð við Brynjar Þór Björnsson í liði KR. Dómarar sjá ekki hvað gerist og láta leikinn halda áfram en á myndböndum eftir á má sjá að Brynjar Þór slengir til hans hendinni og slær hann í andlitið. Stuðningsmenn Tindastóls klóra sér í höfðinu og spyrja sig: Má þetta bara?

Ætla mátti, eftir þá umfjöllun sem málið fékk í fjölmiðlum, að það yrði tekið fyrir af dómaranefnd og kæra send til aga og úrskurðarnefndar KKÍ. Það gerðist hinsvegar ekki og spyrja margir, hvers vegna ekki.

Feykir hafði samband við Stefán Þór Borgþórsson mótastjóra KKÍ sem sagði að engin kæra hefði borist aga og úrskurðarnefndar.

Þegar Feykir hafði samband við Stefán Jónsson formann körfuboltadeildar Tindastóls vildi hann lítið tjáð sig um málið en viðurkenndi að kæran hefði verið klár af hans hendi en vegna þrýstings frá aðilum innan regluverksins hefði hún ekki verið send. Honum hafði verið sagt að að þetta atvik yrði alltaf tekið fyrir vegna alvarleika brotsins.

Samkvæmt Rúnari Birgi Gíslasyni, formanni dómaranefndar KKÍ tók dómaranefnd þetta tilvik til skoðunar og mat það þannig að ekki  væri um brottrekstrarvillu að ræða og  því var atvikið ekki sent aganefnd til meðferðar. „Aðferðafræðin er að leita álits óháðra sérfræðinga hérlendis og erlendis og útgangspunkturinn ávallt hvort um brottrekstrarvillu væri að ræða ef dómarar sæju atvikið,“ sagði Rúnar um málið.

Hvað svo sem segja má um það voru sérfræðingarnir í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 sammála um að svona ætti ekki að líðast í íþróttinni eins og sjá má í spilara Vísis.is HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir