1. apríl liðinn og margir anda léttar

Mynd af meistara Magga Magg sem birtist með frétttini á Eiðfaxa í gær.
Mynd af meistara Magga Magg sem birtist með frétttini á Eiðfaxa í gær.

Í dag er 2. apríl og gaman að velta aðeins fyrir sér hvort margir hafi hlaupið 1. apríl í gær. Fréttamiðlar fara oft af stað með lygavefi og fá fólk til að hlaupa af stað til þess að nýta sér eitthvað stórgott tilboð eða sjá eitthvað sem hefur rekið á fjörur á áður óséðum stöðum. Á meðan aðrir sjá í gegnum platið eru alltaf einhverjir sem falla í gildruna. 

Má til dæmis velta fyrir sér hvort Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum hafi fallið í gildruna í gær þegar sagt var fá því á eidfaxi.is að Magnús Bragi Magnússon bóndi á Íbishóli hefði á dögunum verið ráðinn til starfa hjá RML sem ræktunarleiðtogi íslenska hestsins. Magnús Braga þekkja flestir sem fylgjast með hestamennsku, hann hefur starfað sem hrossaræktandi og tamningamaður í áratugi á Íbishóli í Skagafirði. Í samtali við Eiðfaxa segist Magnús vera spenntur fyrir nýja starfinu. 

Hólmfríður deildi svo fréttinni þar sem hún sagðist hlakka til að mæta til vinnu á morgun og bætti því við að það þyrfti ekki að óttast lognmollu og stöðnun á Hólum í framtíðinni. Ætla má að Hólmfríður hafi verið með þessari deilingu að taka þátt í gríninu. 

En hvaðan er sá siður kominn að vera með grín og hrekki þann 1. apríl. Samkvæmt heimildum blaðamanns eftir stutta ferð um internetið kemur fram að um er að ræða margra alda gamlan sið sem líklega má rekja til Evrópu á miðöldum en þá tíðkaðist að halda upp á nýtt ár á vorjafndægri 25. mars. Samkvæmt fornri hefð stóðu merkar hátíðir í átta daga og 1. apríl var því áttundi og síðasti dagur nýárshátíðarinnar. Nýárið var fært til 1. janúar seint á 16. öld en ærslin og gamanið héldu áfram að tengjast þessum apríldegi þó þau væru ekki lengur hluti af nýárshátíðahöldum.

En tekið skal fram að ef á að láta einhvern hlaupa apríl er nauðsynlegt er að láta fólk fara yfir þrjá þröskulda til að aprílhlaupið sé fullgilt. Sumir segja þó nóg sé að fara þrjá faðma eða yfir einn þröskuld. Spurning hvort að aprílgabbið hjá Eiðfaxa sé þá fullgilt ef engin voru hlaupin, nema einhver hafi tekið á sprett til að segja tíðindin.

Feykir var alveg saklaus af falsfréttum í gær. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir