"Við erum öll Skagfirðingar"

Frá íbúafundinum í Héðinsminni í Akrahreppi. Mynd: SMH.
Frá íbúafundinum í Héðinsminni í Akrahreppi. Mynd: SMH.

Í gær, fimmtudaginn 26. ágúst, voru haldnir tveir íbúafundir um sameiningarviðræður milli Sveitarfélagsins Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Fyrri fundurinn fór fram í Menningarhúsinu Miðgarði og var ætlaður fyrir íbúa Svf. Skagafjarðar, og sá seinni fór fram í Héðinsminni ætlaður fyrir íbúa Akrahrepps.

Fundunum var einnig streymt beint á netinu og tekið var á móti spurningum og svörum í gegnum netið og þar með gátu allir sem sóttu fundinn, hvort sem í sal eða neti, tekið virkan þátt. Um 60 manns sátu fundinn í Miðgarði, 20 á staðnum og 40 á netinu. Betri mæting var á fundinn í Héðinsminni enda ekkert launungarmál að málið snertir íbúa Akrahrepps meira en íbúa í hinu sveitarfélaginu. Um 80 manns sóttu því fundinn í Héðinsminni, 40 á staðnum og 40 á netinu.

Róbert Ragnarsson og Gunnar Úlfarsson hjá RR ráðgjöf kynntu mat á kostum, göllum og tækifærum sameiningar sveitarfélaganna sem fyrirtækið hefur unnið í samstarfi við fulltrúa úr báðum sveitarfélögum. Haldnar voru tvær vinnustofur með fulltrúum sveitarfélaganna, leiddar af ráðgjöfum RR ráðgjafar, sú fyrri þann 29. júní sl. með fulltrúunum í sitthvoru lagi þar sem lagt var mat á styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri í hvoru sveitarfélagi um sig. Í seinni vinnustofunni komu fulltrúarnir saman, farið var yfir niðurstöður fyrri vinnustofunnar, farið var yfir stöðumat, fjárhagslega stöðu hvors sveitarfélags fyrir sig og framtíðarhorfur, farið yfir helstu styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnir mögulegs sameinaðs sveitarfélags og að lokum var framtíðarsýn mótuð.

Niðurstöður þessarar greiningar voru síðan kynntar á íbúafundunum með það að markmiði að kalla eftir sjónarmiðum og ábendingum íbúa. Sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga munu síðan funda í september og taka ákvörðun um það hvort hefja skuli formlegar sameiningarviðræður og skipa samstarfsnefnd.

Báðir fundirnir voru eins uppsettir. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar opnaði lauk fundinum í Miðgarði og Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Svf. Akrahrepps gerði slíkt hið sama í Héðinsminni.

1000 manna íbúalágmark
Róbert Ragnarsson kynnti síðan niðurstöðu þeirrar greiningar sem liggur fyrir. Róbert fór yfir það að þessi vinna sem mörg sveitarfélög eru nú í, ýmis í óformlegum eða formlegum sameiningarviðræðum, hefst á því að Alþingi samþykkir stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga þar sem lögð fram er hugmynd um 1000 íbúa lágmark.

“Það var fallið frá íbúalágmarkinu að því leitinu til að það er ekki gert ráð fyrir þvingun, s.s. þvingunarheimildum ráðherra til að þvinga sveitarfélög til sameiningar, heldur eru núna í nýja ákvæðinu að sveitarfélög þurfa sveitarfélög með færri en 1000 íbúa árið 2026, reyndar sveitarfélög sem eru með færri en 250 íbúa 2022, annað hvort að hefja formlegar sameiningarviðræður, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og hvaða tækifæri felast í því og hvernig menn ætla að leysa þau verkefni. Í tilfelli Akrahrepps, að þá mun Akrahreppur þurfa að taka afstöðu til þess hvora leiðina þau vilja fara,” sagði Róbert.

Núverandi samstarf sveitarfélaganna
Róbert fór síðan yfir stöðu sveitarfélaganna beggja eins og hún er, byggða á tölulegum staðreyndum. Fór hann yfir samstarf sveitarfélaganna sem er umfangsmikið en Svf. Skagafjörður annast 14 verkefni fyrir Akrahrepp, m.a. grunnskóla og leikskóla. Akrahreppur greiddi Svf. Skagafirði 162,3 m. kr. árið 2020 fyrir veitta þjónustu og þátttöku í framkvæmdum skv. samstarfssamningi og nema þær greiðslur um 83% af útgjöldum Akrahrepps.

“Þannig í rauninni, eins og þetta lítur út fyrir mér sem kem svona utanaðkomandi að þessu, þá eruð þið búin að vera í sambúð í mjög mörg ár og eruð saman með eiginlega alla þætti, þannig þetta snýst svolítið um það hvort að þið séuð tilbúin til að ganga þá leið að ganga upp að altarinu,”  sagði Róbert um samstarf sveitarfélaganna.

Ályktanir RR ráðgjafar af stöðugreiningu

  • Rekstur beggja sveitarfélaga hefur verið í jafnvægi undanfarin ár og þau staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
    • Covid-19 hafði mikil áhrif á rekstur ársins 2020 og væntanlega einnig ársins 2021.
  • Rekstur Akrahrepps er viðkvæmur fyrir breytingum á jöfnunarframlögum.
  • Vísbendingar eru um að rekstur Akrahrepps þyngist á komandi árum, fyrst og fremst vegna lækkandi jöfnunarframlaga og aldurssamsetningar.
  • Íbúum í vinnusamasta aldurshópnum (25-54) fækki á meðan eldri borgurum fjölgi.
  • Vísbendingar eru um að jöfnunarframlög til svæðisins lækki um 43 m. kr. við sameiningu sveitarfélagann.
    • Sú breyting kemur fram fimm árum eftir sameiningu, að því gefnu að engar breytingar verði á jöfnunarkerfinu.
    • Stefna Jöfnunarsjóðs er að hækka framlög til meðalstórra sveitarfélaga og lækka til fámennra.
  • Íbúafjöldi á svæðinu hefur vaxið undanfarin ár, en mannfjöldaspá Byggðastofnunar gerir ráð fyrir fækkun íbúa á næstu árum.
  • Sveitarfélagið Skagafjörður sinnir meginþorra lögbundinna verkefna Akrahrepps og 83% af útgjöldum Akrahrepps renna til samstarfsverkefna.
  • Akrahreppur uppfyllir ekki ákvæði 4. Grein sveitastjórnarlaga og skal leita sameiningarviðræðna eftir sveitastjórnarkosningar 2022, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum.
  • Ef sveitarfélögin sameinast ekki þá þurfa ýmsar breytingar að eiga sér stað til að mæta kröfum löggjafans.
  • Yfirvofandi breytingar t.a.m. á barnaverndarkefninu.
    • Barnaverndarnefndir verða lagðar niður og tvær einingar starfræktar, barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar með a.m.k. 6000 íbúa umdæmi.
  • Akrahreppi er skylt, skv. Lögum um meðhöndlun úrgangs, að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs.
    • Íbúar í Akrahreppi ættu því að þurfa að greiða slíkt gjald hvort sem af sameiningu verður eða ekki.


Sjónarmið og ábendingar íbúa
Eins og fram hefur komið voru spurningar lagðar fyrir gesti fundarins í gegnum netið til að sjónarmið íbúa kæmi fram. Nálgast má niðurstöður og ábendingar íbúa frá báðum fundum hér að neðan. Að lokum gátu íbúar kosið um það í gegnum netið, hvort þeim findist að sveitarfélögin ættu að hefja formlegar sameiningarviðræður. Á fundinum í Miðgarði sögðu 18 manns á og 1 nei. Á fundinum í Héðinsminni sögðu 20 já og fjórir nei.

Niðurstöður og ábendingar af íbúafundi í Skagafirði

Niðurstöður og ábendingar af íbúafundi í Akrahreppi


"Við erum öll Skagfirðingar"
Núna í framhaldinu munu sveitastjórnir beggja sveitarfélaga taka ákvörðun um það hvort farið verði í formlegar sameiningar viðræður eða ekki. Ef það verður ákveðið að hefja formlegar sameiningarviðræður, þá fer af stað ákveðið ferli þar sem að samstarfsnefnd mun stilla upp framtíðarsýn sem íbúar geta þá borið saman við núverandi stöðu, og í þessu ferli þá verður áfram kallað eftir sjónarmiðum, athugasemdum og hugmyndum frá íbúum öllum og síðan eru það íbúar sem að lokum greiða atkvæði um það hvort að það eigi að sameina sveitarfélögin eða ekki, og niðurstaða þeirra kosninga er bindandi. 

"Mig langar þá til að enda á að segja, hvort sem að það verði farið í sameiningu sveitarfélagana eða ekki, þá verður Akrahreppur áfram sama góða samfélagið og við erum öll Skagfirðingar, og fyrir hönd hreppsnefndar og Róberts og Gunnars, þá vil ég bara þakka ykkur kærlega fyrir kvöldið og slít fundi," sagði Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Svf. Akrahrepps, að lokum. 

Streymi frá íbúafundinum í Miðgarði

Streymi frá íbúafundinum í Héðinsminni

Glærur frá fundunum

/SMH

 



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir