Enn ein sýndarveruleikasýningin í Skagafirði

Það ætlar að byrja vel sýndarveruleikaævintýrið í Skagafirði en stutt er síðan upplýst var að gera ætti Skagafjörð að vöggu sýndarveruleika á Íslandi þegar kynnt voru áform slíkrar sýningar úr Sturlungasögu á Sauðárkróki. Í dag verður kynnt til sögunnar önnur veruleikasýning þar sem hægt verður að hitta persónur Guðrúnar frá Lundi úr Dalalífi.
Það er fyrirtækið KSEFI ehf. sem stendur að sýningunni og er í helmingseigu Kristínar Sigurrósar Einarsdóttur, athafnakonu sem staðið hefur fyrir sýningum á verkum Guðrúnar frá Lundi bæði með sýningarhaldi á verkum hennar sem og ferðum á söguslóðir sagnanna.
Kristín segir sýninguna verða að grunni til samskonar þeirri og kynnt var á Króknum á dögunum nema hún ætli að stíga skrefi lengra með enn flóknari tækni sem gengur út á nánari samskipti sýndarveruleikapersónanna.
„Það verður hægt að ganga milli bæja í Hrútadal og spjalla við persónur og fá sér kaffi og jafnvel pönnukökur eða lummur. Tæknin mun gera okkur kleift að tala við fólkið, þó samtölin gætu kannski orðið skrítin, þar sem um gervigreind er að ræða. En kaffið verður ekta og pönnukökurnar svo skilningarvitin fimm fá öll að njóta. Augun skynja sögusviðið, eyrun öll þau hljóð sem berast úr náttúrunni, og spjallið auðvitað, bragðlaukarnir njóta veitinga og svo munum við reyna að hafa lykt í sýningarsalnum eins og við ímyndum okkur að hún hafi verið hjá fólki á þessum tíma. Hægt verður að snerta á hlutum fyrir utan það að utanaðkomandi skynjun mun líka eiga sér stað eins og rigning eða gola. Líklega verður þó ekki mikil rigning, frekar svona þokusúld,“ segir Kristín og hlær, þar sem ekki væri gott fyrir gesti að fara heim rennandi blautir eftir hressilegan rigningarskúr í Hrútadal.
Sýningin verður sett upp í Ketilási, gömlu Kaupfélagsversluninni, en rekstri hennar verður hætt um mánaðarmótin maí júní. „Sýningin verður á besta stað, í alfaraleið ferðamannsins,“ segir Kristín bjartsýn á komandi verkefni.
En hvernig kom þessi hugmynd upp?
„Það var nú bara þannig að ónefndur peningamaður hafði samband við mig eftir að hann kom á sýninguna Kona á skjön á Sauðárkróki í fyrrasumar og vildi endilega gera meira úr þessu enda tónar þetta vel við uppbyggingu ferðamanna hér í Fljótum. Mér leist ansi vel á það svo það var drifið í það að finna tölvunarfræðinga til að hanna og vinna sýndarveruleikann. Við ætlum að sýna afraksturinn í dag;“ segir Kristín og það leynir sér ekki að hún er spennt.
Ekki vill hún upplýsa hver hinn dularfulli fjárfestir er enda vill hann enn um sinn halda því leyndu. Aðspurð hvort síðustu tveir stafirnir í nafni hlutafélagsins FI séu upphafsstafir viðkomandi segist hún hvorki gera játað því né neitað. „Ætli það komi ekki í ljós í dag þar sem hann ætlar að mæta á kynninguna.“
Kynning á veruleikasýningu um lífið í Hrútadal verður á tveimur stöðum í dag, stöðum sem tengist Guðrúnu frá Lundi hvor á sinn hátt.
„Við byrjum í Fljótunum, verðum að þessu sinni í Sólgarðaskóla frá klukkan 13 en færum okkur svo á Krókinn. Þar munum við vera að Aðalgötu 2, Náttúrustofu Norðurlands vestra frá klukkan 16. Athugið að gengið er inn bakdyramegin að austan. Það verður að sjálfsögðu heitt á könnunni og pönnukökur fyrir alla.“
Uppfært þann 2. apríl. Þessi frétt er með öllu ósönn enda sett í loftið þann 1. apríl. Hafið þökk fyrir að lesa, deila og skemmta ykkur með okkur á Feyki. Lifið heil!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.