Er búinn að læra áfengislögin utanbókar

Sigurgeir Sigurður Sigurvinsson, 19 ára menntaskólanemi á Sauðárkróki, hafði samband við Dreifarann og vildi endilega koma á framfæri ráðleggingum til þeirra sem ætla á djammið um helgina. Dreifarinn tók Sigurgeir tali.

Jæja Sigurgeir, hvað segirðu, um hvað snýst málið? -Nú, ég rakst á auglýsingu um daginn þar sem auglýstur er dansleikur með Pöpunum um helgina. Í lok auglýsingarinnar er eitthvað talað um að fólki sé ráðlagt að muna eftir áfengislögunum. Ég fékk bara sjokk skiluru og spenningurinn hvarf gjörsamlega þegar ég sá þetta því ég fattaði bara að ég kunni ekki áfengislögin. Ég meina sjitturinn maður, ég sá hreinlega ekki fram á að ég kæmist á dansleikinn þar sem gerð er krafa um að fólk muni áfengislögin, hvað er það!? En svo rifjaðist nú fljótlega upp fyrir mér að ég fór oft í réttirnar með afa mínum heitnum og þar kunnu allir kallarnir áfengislögin.

Og hvað? -Nú ég fór bara á Google og fann nokkur vel valin áfengislög sem fólk ætti að læra fyrir helgina:
Skál og syngja Skagfirðingar
“Skál, nú syngja Skagfirðingar, skemmta sér og gera hitt.”

Þórður Malakoff
“Hann drekkur alltaf eins og svín, og aldrei nema brennivín.”

Blindfullur
“Nú er ég blindfullur og kemst ekki heim,”

Flaskan mín fríð
“Flaskan mín fríð, flaskan mín fríð, fer þér ekki bráðum að ljúka? ”

Það er auðvitað allt fullt af svona áfengislögum á netinu en ég vona að fólk komist á dansleikinn með þessi fjögur lög í farteskinu.

Jæja Sigurgeir, verður svo ekki bara geggjað stuð um helgina? -Jú maður, kjellinn mætir á staðinn með öll áfengislögin á hreinu og á aldeilis eftir að taka á því , fullt af kjellingum og drinks maður, vúhúú!

En Sigurður, þú hefur ekki aldur til að drekka, hefuru lesið áfengislögin, þú þarft að vera tvítugur til að mega drekka? -Tvítugur? Nei blessaður vertu maður, ég held ég hafi aldur, kjellinn búinn að læra alla textana utan að og þar segir hvergi til um aldur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir