Er Landsliðið að springa á limminu?

Síðastliðinn föstudag var sett í gang örlítil netkönnun á Feyki.is varðandi gengi íslenska handboltalandsliðsins. Landsliðið sigraði í fyrstu fimm leikjum sínum á HM í Svíþjóð en í kjölfarið hafa fylgt tvö svekkjandi töp gegn stórveldum Þýskalands og Spánar. Lesendur Feykis voru hins vegar nokkuð bjartsýnir á gengi liðsins áður en að leiknum gegn Spánverjum kom.

Netkönnunin stóð fram í fyrri hálfleikinn í þeim leik en þá höfðu um 35% þeirra sem þátt tóku í könnuninni reiknað með að Landsliðið næði að auka talsvert gullforða þjóðarinnar. 14% áttu von á silfurpening og 13% höfðu gert sér væntingar um að Ísland léki um bronsið.

Nú þegar Ísland á eftir að keppa við margfalda meistara Frakka í milliriðlinum virðist ljóst að besti mögulegi árangur Landsliðsins er fimmta sætið og höfðu 24% þátttakenda í könnuninni spáð þeim árangri. Um 14% voru svo með svartsýnisspár og reiknuðu með að allt færi á versta veg eftir þessa bestu byrjun Íslands á heimsmeistaramóti og liðið léki ekki einu sinni um eitt af efstu sex sætunum.

En þetta kemur allt saman í ljós í dag. Nú er bara að krossa fingur og vonast til þess að íslenska landsliðið í handbolta lyfti þjóðinni upp úr sínum súru þorrabökkum svo hún geti flotið inn í vorið á marglitu glitskýi sjálfumgleðinnar...

Fleiri fréttir