Erfitt að segja til um hvað veldur minni veiði
Nýjustu tölur um veiði í laxveiðiám landsins eru nú komnar á vef Landssambands veiðifélaga, angling.is en þar birtast nýjar tölur vikulega. Þar er gert að umræðuefni að veiðin í nokkrum ám norðan heiða er fremur dræm og er það að mörgu leyti frábrugðið því sem gerist í öðrum landshlutum en þar hafa margar ár verið með meiri, eða jafnvel mun meiri veiði en í fyrra.
„Hvað veldur því að vatnakerfi í einum landshluta séu með minni veiði en á öðrum er erfitt um að segja. Minni heimtur úr hafi geta jafnvel átt sé skýringar sem er að finna í seiðabúskap viðkomandi vatnakerfa og stærð árganga gönguseiða sem gengu til sjávar í fyrra sumar. En líklega er best að bíða með slíkar vangaveltur þangað til veiðitímabili lýkur,“ segir á angling.is.
Af húnvetnsku ánum er Miðfjarðará enn með hæstu veiðitölurnar og situr sem fyrr í fjórða sæti yfir aflahæstu ár landsins með 2.039 laxa sem er umtalsvert minni veiði en á sama tíma í fyrra þegar þar höfðu veiðst 2.668 laxar eða 629 fleiri. Blanda er í ellefta sætinu með 853 laxa en var með 1.390 í fyrra. Mismunurinn er 537 fiskar.
Í Laxá á Ásum hafa nú veiðst 565 laxar, Víðidalsá er með 416, í Vatnsdalsá hafa veiðst 353 laxar, Hrútafjarðará og Síká eru með 245 og loks er Svartá með 110 laxa. Heildarveiðin í húnvetnsku ánum er 4.581 lax en var 6.246 á sama tima í fyrra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.