Erindi um hönnun og gerð sjálfbærra gönguleiða og áningarstaða

Á morgun, miðvikudaginn 21. nóvember klukkan 13:00, flytur Davíð Arnar Stefánsson, verkefnisstjóri hjá Landgræðslu ríkisins, erindi í Háskólanum á Hólum. Erindið nefnist Aukin fagþekking við hönnun og gerð sjálfbærra gönguleiða og áningarstaða og er það hluti af fyrirlestrarröð Vísinda og grauts við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Fyrirlesturinn er opinn öllum.

Í kynningu á fyrirlestrinum segir:
„Ferðamennska og útivist hefur vaxið mikið á síðustu árum hérlendis. Jafnframt hefur álag aukist á ferðamannastaði og útivistarsvæði, oft með tilheyrandi landskemmdum. Víða hefur verið brugðist við með uppbyggingu gönguleiða og áningarstaða og varið til þess háum fjárhæðum með mismunandi árangri.
Sá hluti lands sem stendur utan þjóðgarða og verndaðra svæða er sérstaklega berskjaldaður fyrir landskemmdum. Ábyrgðaraðilar hafa oft úr litlu fjármagni að spila til verndaraðgerða og víða er takmörkuð þekking á viðfangsefninu. Mikilvægt er að efla fagþekkingu á hönnun og gerð sjálfbærra ferðamannastaða og útivistarsvæða meðal sveitarfélaga, landeigenda og annarra umsjónaraðila lands, til verndar náttúru og til að  tryggja ábyrga ráðstöfun fjármuna.
Í erindinu verður fjallað um grundvallaratriði við hönnun og gerð göngustíga og áningarstaða í náttúru Íslands. Sagt verður frá ASCENT verkefni Landgræðslunnar (Apply Skills and Conserve our Environment with New Tools) og samstarfsaðila hennar. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að auka fagþekkingu þeirra sem fást við umsjá ferðamannastaða og útivistarsvæða."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir