Ertu búin/n að skila skattframtali í ár?

Framtalsskilin eru í blússandi gangi og framtalsgleði mikil víðsvegar um landið segir á Facebook-síðunni Skatturinn og eru nú 21% landsmanna búin að skila framtali. Áhugavert er að rýna í tölurnar og skoða út frá sveitarfélögum hver eru duglegust að skila. Þar sést að Reykjanesið er leiðandi í framtalsskilunum með gull, silfur og brons, langt yfir landsmeðaltali og Sveitarfélagið Skagaströnd er í fjórða sæti. Eigum við ekki að koma öllum sveitarfélögunum hér á Norðurlandi vestra í topp 10 listann? Skilafrestur er til 14. mars.

 

Fróðleiksmoli um framtalið

Þótt allar upplýsingar sem telja þarf fram sé forskráðar hjá flestum er vert að vekja athygli á að stundum þarf að bæta við upplýsingum.

Verktakagreiðslur gætu verið forskráðar en það er ekki algilt. Gera má grein fyrir þeim og kostnaði á fylgiskjali með framtalinu.

     - RSK 4.10 fyrir verktakagreiðslur allt að 2 milljónum

     - RSK 4.11 fyrir verktakagreiðslur yfir tveim milljónum.

Frádráttur á móti styrk eða starfstengdum greiðslum:

  • Sé heimilt að færa frádrátt á móti styrk eða starfstengdum greiðslum á árinu, þarf að færa frádráttinn í kafla 2.6 á framtali. Hann fer í reit 149 eða 157 eftir hvers eðlis hann er.
  • Kaup og sala fasteigna eru forskráð á fylgiskjal RSK 3.02. Framteljandi þarf sjálfur að tilgreina hvers konar eign var keypt og skrá eignarhaldstíma ef eign var seld.
  • Erlendar tekjur, s.s. laun og lífeyrir, þarf að telja fram í kafla 2.8 á tekjusíðu framtals. Erlendar bankainnstæður þarf að skrá í kafla 3.2 og erlendar fasteignir í kafla 4.2.
  • Leigutekjur af íbúðarhúsnæði þarf að færa inn á fylgiskjal RSK 3.25. Þaðan flytjast þær á framtal, í reit 510 á síðunni Fjármagnstekjur. Aðrar leigutekjur, svo sem tekjur af leigu til ferðamanna sem ekki flokkast sem atvinnurekstur, þarf að skrá í reit 511 í sama kafla. Sé um rekstur að ræða þarf að setja leigutekjur á rekstrarskýrslu.
  • Lækkun á tekjuskattstofni. Eigi framteljandi rétt á lækkun á tekjuskattsstofni, svo sem vegna veikinda, slysa eða eignatjóns, er það gert með því að fylla út fylgiskjalið RSK 3.05, Umsókn um lækkun.
  • Þau sem eiga ungmenni á aldrinum 16-21 árs geta átt rétt á ívilnun vegna framfærslu þeirra og sækja um lækkun á forsíðu.
  • Staða hlutabréfa birtist eins og hún var á síðasta framtali. Allar breytingar, kaup og sala, arðgreiðslur og fleira þarf framteljandi sjálfur að færa inn á hlutabréfablaðið RSK 3.19, fylgiskjal með framtali.
  • Hafi verðbréf verið seld/innleyst á árinu er salan í mörgum tilvikum forskráð á fylgiskjali RSK 3.15, annars þarf framteljandi að skrá þær upplýsingar.

Nákvæmar framtalsleiðbeiningar má finna framtalsleiðbeiningar: https://www.skatturinn.is/.../framtalsleidbeiningar/2024

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir