Evrópusambandsaðild fyrr en síðar

„Ég hef trú á því að við munum fyrr en síðar ganga í Evrópusambandið og vinna að því
á þeim vettvangi að skapa varanlegan grundvöll fyrir peningamálastefnu okkar.
Ég er jafnframt sannfærður um að sveitarfélögin munu hafa tækifæri til að nýta sér þann vettvang enn frekar sér til framdráttar en þau hafa getað gert innan Evrópska efnahagssvæðisins. Margvíslegt gagnlegt starf helgað sveitarstjórnarstiginu fer fram á vegum sambandsins, eins og mörg ykkar vita sem t.d. hafið sótt hina svokölluðu opna daga sveitarfélaganna í Brussel,“ sagði ráðherra sveitarstjórnamála, Kristján L. Möller, í niðurlagi ræðu sinnar á fjármálaráðstefnunni í dag. 

Hann vísaði til skýrslna sem sýndu ávinning Íslendinga af EB-aðild og sagði að fróðlegt væri að vita hve mikið Ísland myndi fá úr uppbyggingarsjóðum ESB við aðild nú miðað við þá útreikninga sem gerðir voru þegar þjóðarframleiðsla á mann var sú mesta í Evrópu. Hann bætti við:

„Kaldhamrað hagsmunamat sýnir okkur í dag að fullveldi okkar og sjálfstæði er best varðveitt í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir sem tryggir okkur raunverulega hagsæld og varanlegan stöðugleika. Þó nú ólgi kólguský í gráum himni koma tímar, koma ráð. Því brýni ég ykkur, kæru sveitarstjórnarmenn, að horfa til framtíðar. Hafið þið trú á sveitarfélögum ykkar og þeirri heild í Íslandi öllu sem þau tilheyra og styrkir þau og sjálfstæði þeirra.“

Ráðherrann fagnaði því að mörg sveitarfélög hefðu haft frumkvæði að .því að breyta áætlunum sínum á þann veg að verja grunnþjónustu sína og „láta velferðarþætti ganga fyrir en fresta  verkefnum sem hafa minni þýðingu á tímum sem þessum.“  Þegar fjárlagafrumvarpið kæmi fram yrði kallað til samráðs ráðuneyta og sveitarfélaga um hvernig best væri að verja grunn- og velferðarþjónustuna í landinu.

Kristján L. Möller boðaði lagafrumvörp á sínum vegum um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga, um gatnagerðargjöld og um að lágmarksfjöldi íbúa skuli hækka úr 50 í 1.000 manns samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Í síðastnefnda frumvarpinu er gert ráð fyrir að árið 2014 verði ekkert sveitarfélag með færri íbúa en þúsund nema sérstakar landfræðilegar eða félagslegar aðstæður mæli með öðru. Hann sagði að menn hljóti að spyrja sig hvort við höfum efni á óbreyttu ástandi, til dæmis hvort hægt sé að réttlæta tvo tónlistarskóla með 12 kílómetra millibili?

Ráðherra sagðist með frumvörpunum koma til móts við sveitarstjórnarmenn annars vegar um lengd lögveðs vegna fasteignaskatts og hins vegar um endurgreiðslu gatnagerðargjalda. Lögum yrði samt ekki breytt þannig að þau tækjui á þeim skaða sem orðinn væri vegna sveitarfélaga sem hefðu ef til vill „farið of geyst í uppbyggingu nýrra hverfa“ og stæðu nú frammi fyrir miklum vanda vegna þess mikla fjölda lóða sem hefur verið skilað.

Ríkisstjórnin vinnur áfram að því að flytja málefni fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna 2011 og 2012 eins og áætlað var og skipuð verður nefnd til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga vegna nýrra verkefna þeirra. Ráðherrann boðaði sömuleiðis heildarendurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með það að markmiði að nýjar og einfaldari reglur tækju gildi um leið og ný verkefni færðust til sveitarfélaganna 2011.

Fleiri fréttir