Eyþór Árnason les upp úr ljóðabók sinni Norður í kvöld á Facebook

Skagfirðingurinn og ljóðskáldið úr Blönduhlíðinni Eyþór Árnason hefur glatt ljóðaunnendur með upplestri á ljóðabókum sínum á Facebook-síðu sinni og hefur lesið eina bók frá upphafi til enda í hvert sinn. Í kvöld er komið að þriðja lestri er hann fer í gengum bókina Norður sem út kom árið 2015. „Þetta var nú bara hugdetta sem vaknaði núna fyrir síðustu jól og svo var maður að bræða þetta með sér og ákvað síðan að nota Covid-ástandið og kýla á það,“ segir Eyþór aðspurður um atburðinn.

 

Hann segir að þegar lesið sé upp úr bókum verði oftast sömu ljóðin fyrir valinu og þess vegna þætti honum gaman að leyfa öllum njóta sín með því að lesa allar bækurnar fimm með haus og hala. Segir hann viðtökur hlustenda hafa verið sallafín.

„Þemað í bókinni Norður sem ég ætla að lesa í kvöld er eiginlega rútuferð norður í Skagafjörð. Að vísu fer hugurinn út og suður og draumar fara á stjá, en sjoppurnar ramma þetta inn. Hugurinn leitar jú oft norður,“ segir Eyþór sem ólst upp á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði. Hann var orðinn þrítugur þegar hann flutti endanlega í höfuðstaðinn og segir það eðlilegt að sveitin kalli stundum á hann.

En skyldi vera ný bók í sigtinu?
„Ný bók? Tja, við skulum vona það besta. Borgar sig ekki að vera með neinar yfirlýsingar,“ segir hann en hvort séu komin Covidljóð segir hann svo vera: „Já það komu Covid- ljóð í apríl í fyrra og kannski hefur pestin litað fleiri.“

Eyþór áætlar að lesa bókina Ég sef ekki í draumheldum náttfötum 2. mars og Skepnur eru vitlausar í þetta þann 9. mars. Áhugasamir geta nálgast upplesturinn á Facebooksíðu Eyþórs þar sem hann er opinn öllum og mun lifa áfram þar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir