Fall staðreynd eftir tap gegn Stjörnunni

Það var sárt að falla. Stólastúlkur klappa fyrir stoltu stuðningsliði sínu sem hefur verið duglegt að styðja við bakið á liðinu, heima og að heiman. MYND: ÓAB
Það var sárt að falla. Stólastúlkur klappa fyrir stoltu stuðningsliði sínu sem hefur verið duglegt að styðja við bakið á liðinu, heima og að heiman. MYND: ÓAB

Stólastúlkur spiluðu síðasta leik sinn í efstu deild í bili í dag þegar lið Stjörnunnar úr Garðabæ kom í heimsókn á Krókinn. Ljóst var fyrir leikinn að það var nánast eins og að biðja um kraftaverk að ætlast til þess að lið Tindastóls héldi sæti sínu í efstu deild en það var þó veikur möguleiki. Stelpurnar börðust eins og ljón og gáfu allt í leikinn en gestirnir gáfu fá færi á sér og nýttu sér síðan örvæntingu heimastúlkna til að næla í sigurmark þegar lið Tindastóls var komið framar á völlinn. Lokatölur voru 1-2 fyrir Garðbæinga og því ljóst að Lengjudeildin tekur við hjá liði Tindastóls næsta sumar.

Það var vott en stillt á meðan leikurinn fór fram og í raun fínar fótboltaaðstæður. Lið Tindastóls hóf leik af miklum krafti og eftir flotta rispu Aldísar Maríu upp vinstri kantinn sendi hún boltann fyrir markið, hann barst að lokum til Hugrúnar sem setti boltann laglega í markið eftir gott hlaup hjá Murr sem lét boltann fara. Fimm mínútur liðnar og draumabyrjun en Stólastúlkur voru ekki lengi í Paradís. Lið Stjörnunnar fékk hornspyrnu þremur mínútum síðar og Amber í markinu fór út í teig og sló boltann frá, hún lét það ekki duga í þetta skiptið og kannski tekið upplegg þjálfaranna um rokk og ról og pressu á andstæðinginn of bókstaflega. Hún elti boltann út fyrir teiginn en Stjörnustúlkur voru fyrri til, komu boltanum aftur í boxið og þar skilaði Elín Helga boltanum í markið. Við þetta fór loftið pínu úr Stólastúlkum en leikurinn í góðu jafnvægi í fyrri hálfleik en lítið um færi.

Uppleggið hjá þjálfurunum fyrir leik var blússandi sóknarbolti og það átti að pressa lið Stjörnunnar eins hátt uppi á vellinum og mögulegt var. Það fer að sjálfsögðu mikil orka í þetta og eftir því sem á leið síðari hálfleik þurfti lið Tindastóls að taka meiri áhættu og ýta fleiri leikmönnum framar. Það fóru því að skapast tækifæri fyrir gestina að sækja hratt og koma boltanum inn fyrir vörn Stólastúlkna. Vörnin gerði vel en Amber varði engu að síður nokkrum sinnum hreint frábærlega. Hinum megin var lið Tindastóls hættulegt í föstum leikatriðum en úrslitasendingarnar í sókninni reyndust jafnan örlítið ónákvæmar og Halla Margrét í markinu greip oft vel inn í. Hún varði frábærlega skot frá Laufeyju sem var á leið í fjærhornið og þá björguðu Stjörnustúlkur á línu skoti frá Kristrúnu. Sigurmarkið kom á 85. mínútu og það gerði Arna Dís eftir ágæta sókn þar sem vörn Tindastóls náði ekki að hreinsa boltann frá. Þó heimastúlkur legðu allt í að jafna leikinn þá gekk það ekki eftir í þetta sinn og ósigur og fall staðreynd.

Hversu flottar voru Stólastúlkur í sumar?

Þó það sé að sjálfsögðu svekkjandi að falla má í raun fullyrða að lið Tindastóls hafi komið skemmtilega á óvart í sumar og náð betri árangri en flestir þorðu að vona. Sennilega höfðu margir áhyggjur af vörninni fyrir tímabilið en þar voru gammar í hverri stöðu sem gáfu hvergi eftir. Sóknarleikurinn átti hins vegar erfitt uppdráttar og að færa boltann með gæðum upp völlinn. Lið Tindastóls skorar 15 mörk í 18 leikjum en fellur með markatölu sem er -17 og þar af eiga Íslandsmeistarar Vals -10 mörk. Sem segir okkur að fjölmargir leikir töpuðust með minnsta mögulega mun. Og hversu flottar voru stelpurnar okkar í sumar? Nöldur í dómurum eða dónaskapur heyrðist aldrei, spjöld sárafá en samt var aldrei gefið eftir. Stólastúlkur voru til fyrirmyndar.

Að leik loknum klöppuðu þakklátir og stoltir stuðningsmenn Stólanna vel og lengi fyrir liðinu sínu og fengu klapp til baka og ekki laust við að tár féllu hjá sumum leikmanna Tindastóls sem voru kannski að spila sinn síðasta leik fyrir liðið. Það skiptir nefnilega ekki minna máli en úrslitin í leikjunum að upp úr svona ævintýrum skapist góðar minningar og vinátta og væntumþykja sem aldrei gleymist.

Þá má geta þess að þetta var síðasti leikur Guðna Þórs þjálfara við stjórnvölinn hjá liði Tindastóls en hann er nú fluttur suður yfir heiðar. Guðni tjáði blaðamanni að þetta væri búið að vera ævintýri og árangurinn farið fram úr björtustu vonum. Ánægjulegt sé að sjá lið Tindastóls nú fullt af frambærilegum fótboltakonum sem hafa tekið miklum framförum í efstu deild í sumar.

Takk fyrir sumarið Stólastúlkur!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir