Ferðamönnum á Skagaströnd hefur fjölgað mikið

Skjámynd af forsíðu skýrslunnar af vefnum Skagastrond.is
Skjámynd af forsíðu skýrslunnar af vefnum Skagastrond.is

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur látið vinna samantekt um ferðamenn á Skagaströnd árin 2004-2017 og hefur hún verið birt á vef sveitarfélagsins.  Skýrsluhöfundur er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónstunnar ehf.

Áætlað er að erlendir ferðamenn sem sóttu Skagaströnd heim árið 2017 hafi verið um 45 þúsund talsins, 32 þúsund árið 2016 og um 25 þúsund árið 2015. Árið 2004 er talið að fjöldi erlendra ferðamanna hafi verið um átta þúsund manns og er því fjölgunin á þessum 13 árum um 460%. Fjölgunin milli áranna 2014 og 2017 er tvöföld og um 40% milli áranna 2016 og 2017.

Samkvæmt þessum tölum munu 10-11%% erlendra ferðamanna sem lögðu leið sína um Húnavatnssýslur hafa komið til Skagastrandar og 2,2% þeirra sem heimsóttu Ísland árið 2017.

Greinilegt er að ferðamannatíminn hefur lengst en árið 2004 komu um 92% erlendra gesta á Skagaströnd þangað að sumarlagi en 8% hina níu mánuði ársins. Sumargestir voru hins vegar um 60% árið 2017 á móti 40% á öðrum árstímum. Flestir hinna erlendu gesta komu frá Norður-Ameríku eða 27%, frá Mið-Evrópu 21% og jafnmargir frá Suður-Evrópu.

Áætlað er að ferðamönnum á Skagaströnd, innlendum og erlendum, hafi fjölgað úr um 30 þúsund árið 2004 í um 78 þúsund árið 2017 eða um 160%. Árin 2004-2010 mun mikill meirihluti gesta hafa verið Íslendingar, eða 71-73%. Árið 2016 er talið að hóparnir hafi verið svipað fjölmennir en í fyrra voru erlendir ferðamenn orðnir fleiri eða um 58% á móti 42% Íslendinga.

 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir