Feyki pakkað í fjáröflunarskyni

Nokkrar hressar stelpur í 3.flokki Tindastóls í fótboltanum hafa nú í dag verið að pakka Feyki inn í plastpoka og lauma með greiðsluseðlum fyrir síðustu átta tölublöð. Kaupið sem stelpurnar fá fyrir er lagt inn á ferðareikning en áætlað er að fara á hið fræga Gothia Cup fótboltamót í Svíþjóð sem haldið verður í júlí.

Í blaðinu í dag kennir margra grasa eins og venja er. Aðalviðtalið að þessu sinni er við Bjarna Jónsson sem gegnir formennsku í SSNV og segir hann frá því hvernig SSNV hyggst koma fram og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra en mikil varnarbarátta hefur farið fram gagnvart ríkisvaldinu sem sveiflar niðurskurðarhnífnum af alefli.

Í föstu liðunum eru skemmtilegar frásagnir; Guðný Káradóttir brottfluttur Króksari skrifar áskorendapistilinn, Jón og Matthildur á Sauðárkróki eru með ljúfengar uppskriftir m.a. Rokna Túla frá Alsír en þeim rétti kynntist Matthildur sem skiptinemi í Frakklandi. Tryggvi Björnsson hestamaður með meiru segir okkur frá uppáhalds liðinu sínu og hvernig það var að vera innan um 4000 grátandi Liverpool aðdáendur þegar hann fór og sá liðið sitt leggja þá fyrir nokkrum árum.

Þá segir Hildur Ingólfsdóttir frá degi í lífi skólastjóra en hún stýrir Höfðaskóla á Skagaströnd og myndaumfjöllun er frá því þegar hinum stórkostlegu Árskólakonum var haldið kaffisamsæti í tilefni konudagsins og í hestaumfjöllun er m.a. viðtal við Sigríði Björnsdóttur dýralækni þar sem hún er spurð út í afleiðingar hrossapestarinnar sem geisaði á síðasta ári. Auk þessa er blaðið stútfullt af skemmtilegu efni þar sem hver og einn ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fleiri fréttir